Verk

Útlagar | 1901

Með sýningu á höggmyndinni Útlagar á Charlottenborgarsýningunni í Kaupmannahöfn árið 1901 haslaði Einar sér völl sem myndhöggvari. Myndefnið sótti hann í útilegumannasögur úr flokki íslenskra þjóðsagna. Í skrá frá sýningunni stóð að verkið væri að vissu marki byggt á ýmsum minnum úr íslenskum sögum, en að skáldskapurinn fjallaði um mann sem hefði verið dæmdur fyrir glæp og flúið með konu sína og barn inn á öræfi Íslands.

Á verkið að sýna manninn með látna konu sína á bakinu á leið í kirkjugarðinn að næturlagi. Þungamiðja þess er karlmaður sem ber líflausa konu á bakinu og barn á handlegg og er áhersla lögð á þreytulegt göngulag mannsins og sorgmætt andlit. Formrænt séð er verkið natúralískt þar sem lögð er áhersla á gera öllum atriðum nákvæm skil. Í heild kallar það fram tilfinningaleg viðbrögð áhorfandans og má túlka það sem táknmynd einsemdar og útskúfunar þess sem dæmdur hefur verið.

Höggmyndin Útlagar vakti hrifningu Íslendinga, ekki síst val listamannsins á efni úr íslenskum þjóðsögum. Einar óskaði þess að Íslendingar eignuðust verkið og árið 1904 keypti Ditlev Thomsen kaupmaður í Reykjavík það og gaf það íslensku þjóðinni. Í fyrstu var verkinu komið fyrir í anddyri Alþingishússins, en var síðar flutt í anddyri Íslandsbanka við Lækjartorg. Árið 1920 var því komið fyrir í sýningarsal Listasafns Einars Jónssonar. 

 

Til baka