Listhugleiðsla

Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um fyrrum listhugleiðslur, allt frá byrjun árs 2020.

Í listhugleiðslu gafst gestum tækifæri á innihaldsríkri og forvitnilegri safnaupplifun sem miðaði að því að hægja á og taka aðeins eitt verk inn í einu. Með þessu móti fékk fólk tíma til að skynja, njóta og uppgötva á einstakan hátt.

5. janúar 2021

Hugleitt var við höggmyndina Skuld (1900-1927) í fyrstu listhugleiðslunni á nýju ári.

Undir lok 19. aldar var algengt meðal listamanna í norðanverðri Evrópu að leita í fornan norrænan mennningararf og það gerir Einar hér. Hér er það hin hulda vera sem jafnframt er stærri en maðurinn sem hefur greinilegra mennskt útlit, sem táknar örlaganornina Skuld sem hvíslar í eyra mannsins og minnir hann á ábyrgð hans. Við sjáum að maðurinn heldur ekki lengur um taumana, hann hefur misst stjórnina, misst taumhaldið í kjölfar þess að hann reið manninn niður og hvers vegna getum við ímyndað okkur: Fór hann of hratt?

15. desember 2020

Í listhugleiðslu þriðjudaginn 15. desember var aftur hugleitt við lágmyndina Fæðingu sálar (1915-1918) eftir Einar Jónsson. Fróðleiksmola um verkið má finna neðar á síðunni.

17. nóvember 2020

Listhugleiðslan var með öðruvísi sniði þennan þriðjudaginn vegna tímabundinnar Covid-lokunar á safninu. Hugleitt var við höggmyndina Hvíld (1915-1935) og gátu áhugasamir tekið þátt í viðburðinum í gegnum rafrænt streymi beint frá safninu. Það sem er sérstakt við tiltekina höggmynd er að ásýnd hennar er gjörólík eftir því frá hvaða sjónarhorni er horft á hana.

 

20. október 2020

Þriðjudaginn 20. október var sjónum beint að Dögun (1897-1906) í listhugleiðslunni. 
Þjóðsagan um nátttröllið er notuð sem grunnur fyrir symbólíska merkingu verksins: Á jólanótt fer heimilisfólk á bóndabænum sem kúrir undir rótum fjallsins til kirkju, á meðan að heimasætan er ein eftir heima og gætir bús og glóðanna í hlóðunum. Tröllkarl kemur að og vill hafa hana með sér.

 

13. október 2020

Þriðjudaginn 13. október bauð Listasafn Einars Jónssonar upp á streymi í beinni útsendingu frá listhugleiðslu vikunnar. Að þessu sinni var hugleitt við höggmyndina Útlaga frá árinu 1901 en á safninu er frummyndin úr gifsi varðveitt. Bronsafsteypur af verkinu má sjá við Hólavallagarð í vesturbæ Reykjavíkur og Eyrarlandsveg á Akureyri. Og nú í fyrsta sinn var verkið líka aðgengilegt í netheimum...

 

6. október 2020

Þriðjudaginn 6. október var listhugleiðslan í bláa sal, þar sem höggmyndin Þróun (1913-1914) eftir Einar var skoðuð. Verkið hefur undirtitilinn Miðtíð og samanstendur af fjórum þáttum. Séð frá hlið er liggjandi uxi, þá risavaxinn jötunn sem hvílir aðra höndina á uxanum en hina á smávaxnari uppréttum manni sem heldur á hnetti með krossfestingu og að baki hennar er annar, smærri maður með hendur í bænastöðu og er hann jafnfram hæsti punktur verksins. Hér tákna dýrið, jötuninn og maðurinn þrjú andleg tilverustig. Í listhugleiðslunni kom á daginn að það var svo sannarlega margt sem hægt var að hugleiða út frá verkinu.

 

29. september 2020

Verkið sem valið var til listhugleiðslu þriðjudaginn 29. september var  Deiglan (1913-1914) eftir Einar Jónsson. Í verkinu vinnur Einar á táknrænan hátt með andlega þróun mannsins og upprisu sálarinnar.

 

22. september 2020

Einar Jónsson hefur nám við Det Kongelige Akademi for de Skønne Kunster eða Listaakademíuna haustið 1896 og er höggmyndin Nemesis frá því ári. Verkið hefur verið í viðgerð um nokkurt skeið en er nú komið aftur „heim“ á safnið. Í listhugleiðslu þriðjudaginn 22. september var rýnt í verkið en myndefnið sækir Einar í rómverska goðafræði. Nemesis er gyðja jafnvægis á milli allra hluta, þar af leiðandi einnig gyðja hefndar og refsingar og gegnir hún svipuðu hlutverki og Skuld gerir í norrænni goðafræði.

 

15. september 2020

Einar Jónsson vann að Kristsmynd árið 1946. Verkið er rúmir þrír metrar á hæð. Í listhugleiðslu þriðjudaginn 15. september var verkið skoðað og íhugað.

Einar Jónsson hófst handa við að gera Kristsmyndina eða Kristsstyttuna eftir að hafa séð mynd af líkklæðinu frá Tórínó. Líkklæðið frá Tórínó er einn frægasti og mest rannsakaði hlutur kirkjuverka. Því hefur verið haldið fram að þar sé um að ræða líkklæði Krists, og því til stuðnings er mynd sem tekin var árið 1898, sem sýnir negatívu myndina af andliti Krists og síðar kom í ljós negatív mynd líkamans alls. Enn eru skiptar skoðanir hvort um sé að ræða líkklæði Krists.

Til gamans má benda á að í bók sinni Skoðanir hefur Einar þessi orð um Krist: 
„Hann er kærleikurinn sjálfur, von vor og huggun, hann er vegurinn, sem óvitar og sakleysingjar rata, hann er sannleikurinn, sem aldrei svíkur, hann er lífið sjálft.“ (Skoðanir bls. 197)

 

8. september 2020

Draumur og dagsverk frá árinu 1953, lágmynd eftir Einar Jónsson, var skoðuð í listhugleiðslu þriðjudaginn 8. september. Verkið er í raun afar sérstakt þar sem það er hið síðasta verk sem Einar lauk við á sínum einstaka listamannsferli.

 

1. september 2020

Septembermánuður þetta árið byrjaði með sannkallaðri hátíðarstemningu á Listasafni Einars Jónssonar. Hugleitt var við höggmyndina Natura Mater frá árinu 1906 en auk þess lék Laufey Sigurðardóttir, fiðluleikari, tvo kafla úr Partítu II í d-moll eftir Bach. 

Laufey hélt síðan tónleika laugardaginn 5. september á safninu og lék þá alla Partítu II í d-moll.

 

18. ágúst 2020

Í listhugleiðslu þennan daginn var hið margslungna verk Einars Jónssonar Vökumaðurinn frá 1902 skoðað. 
Samkvæmt íslenskri þjóðtrú er vökumaður sá sem fyrstur er grafinn í nýjum kirkjugarði. Lík hans rotnar ekki sem gerir það að verkum að hann vakir yfir garðinum og öllum þeim sem á eftir koma og hvíla í garðinum. Hlutskipti vökumannsins þótti sannarlega ekki eftirsóknarvert.

 

30. júní 2020

Í listhugleiðslu þriðjudaginn 30. júní skoðuðum við höggmyndina Í minningu skáldsins sem Einar Jónsson gerði árið 1945 í minningu Jónasar Hallgrímssonar. Verkið er staðsett á jarðhæðinni í Listasafni Einars Jónssonar. Það er forvitnilegt að bera þetta verk saman við standmyndina af Jónasi sem stendur í Hljómskálagarðinum en hún er fyrsta verkið sem pantað var af Einari Jónssyni, árið 1905, og var afhjúpuð á afmælisdegi skáldsins árið 1907. Einar fékk skýr fyrirmæli um hvernig það verk skyldi vera en það var all fjarri hugmyndum hans um gerð minnismerkja.26. maí 2020

Þennan þriðjudaginn var höggmyndin Vernd frá árunum 1912-1934 tekin fyrir. Í höggmyndagarðinum miðjum er einnig bronsafsteypa af þessu sama verki sem sýnir móðurina sem hinn sterka og staðfasta verndara barnsins sem hvílir í einstakri ró í móðurfaðmi.
Áhugavert var að lesa í og túlka verkið á margvíslega vegu, ekki síst  vegna symbólismans sem Einar var undir miklum áhrifum frá á þeim árum sem þetta verk var unnið.19. maí 2020

Verkið Úr álögum (1916-1927) var viðfangsefnið í listhugleiðslunni hjá okkur á Listasafni Einars Jónssonar þennan þriðjudaginn. Spurningar sem vöknuðu upp á meðan á hugleiðslunni stóð, snéru m.a. að því hvort að grundvöllur væri fyrir því að túlka inntak verksins út frá hugmyndum Einars um frelsi í listsköpun?12. maí 2020

Í fyrstu listhugleiðslu maímánaðar þetta árið var hugleitt við höggmyndina Skuld sem Einar gerði á árunum 1900-1927. Skyssu af verkinu gerir Einar árið 1900 sem hann kallaði Eigin örlög og var úr brenndum leir.
10. mars 2020

Í listhugleiðslu þennan þriðjudaginn voru brjóstmyndir Einars í rauða sal teknar fyrir og hugleitt í kringum þær.3. mars 2020

Þriðjudaginn 3. mars var listhugleiðslan við höggmyndina Hvíld sem Einar vann að á árunum 1915-1935.25. febrúar 2020

Dvalið var við Fæðingu sálar (Fæðing Psyche) í listhugleiðslunni þennan daginn, en  Einar vann að höggmyndinni á árunum 1915-1918 og sú lágmynd er að stærðinni 71 x 71 cm. Síðar vann hann stærri útgáfu sem hann lauk við árið 1927 sem er vel yfir 2 metrar á kant og er það verk til sýnis hér á safninu.

Þegar verið var að gera höggmyndagarðinn á sínum tíma voru gerðar afsteypur af Fæðingu sálar og seldar til þess að fjármagna framkvæmdina. Þess vegna eiga mörg ráðuneyti og opinberar stofnanir afsteypu af þessu verki og má oft sjá það þegar verið er að taka viðtal í sjónvarpi m.a. þegar tökustaðurinn er skrifstofa menntamálaráðherra. Ásamt því má finna afsteypu af verkinu í Vestmannaeyjum.11. febrúar 2020

Hið fagra verk Alda aldanna var tekið fyrir í listhugleiðslu þriðjudaginn 11. febrúar. Einar gerir frumdrög að Öldu aldanna í Róm árið 1902, stækkar verkið árið 1905 og sýnir svo í Kaupmannahöfn 1908. Líkt og önnur verk Einars frá þessum tíma má segja að Alda aldanna eigi sér fleira en eitt merkingarsvið.