Listhugleiðsla

Listhugleiðsla er haldin á Listasafni Einars Jónssonar í hádeginu alla þriðjudaga kl. 12:10-12:50.

Í listhugleiðslu gefst gestum tækifæri á innihaldsríkri og forvitnilegri safnaupplifun sem miðar að því að hægja á og taka aðeins eitt verk inn í einu. Með þessu móti fær fólk tíma til að skynja, njóta og uppgötva á einstakan hátt.

Umsjón með listhugleiðslunni hefur Halla Margrét Jóhannesdóttir. Hún starfar sem safnvörður á Listasafni Einars Jónssonar en er einnig leikari og rithöfundur og hefur jafnframt yogakennararéttindi.

Listhugleiðslan hefst stundvíslega klukkan 12:10 og lýkur klukkan 12:50 alla þriðjudaga – tilvalinn tími til að standa upp frá vinnu, slökkva á símanum og næra andann í hádeginu.

Gestir á viðburðinn greiða fyrir aðgang að safninu. Aðgangseyrir er 1000 krónur en 500 krónur fyrir eldri borgara og öryrkja.

Á safninu eru stólar og litlar sessur en kjósi gestir að taka með sér hugleiðslupúða eða yogadýnur er það velkomið.

Gestum er að sjálfsögðu heimilt að dvelja lengur á safninu að lokinni listhugleiðslunni.

Vinsamlegast athugið að þar sem tveggja metra fjarlægðarreglan er í hávegum höfð á tímum Covid19 og vegna aðstæðna í sölum safnsins er þátttakendafjöldi í listhugleiðslu takmarkaður við 12 gesti. Fyrstur kemur fyrstur fær.

Öll velkomin!

 

 

13. október 2020

Þriðjudaginn 13. október bauð Listasafn Einars Jónssonar upp á streymi í beinni útsendingu frá listhugleiðslu vikunnar. Að þessu sinni var hugleitt við höggmyndina Útlaga frá árinu 1901 en á safninu er frummyndin úr gifsi varðveitt. Bronsafsteypur af verkinu má sjá við Hólavallagarð í vesturbæ Reykjavíkur og Eyrarlandsveg á Akureyri. Og nú í fyrsta sinn var verkið líka aðgengilegt í netheimum...

 

6. október 2020

Þriðjudaginn 6. október var listhugleiðslan í bláa sal, þar sem höggmyndin Þróun (1913-1914) eftir Einar var skoðuð.

 

29. september 2020

Verkið sem valið var til listhugleiðslu þriðjudaginn 29. september var  Deiglan (1913-1914) eftir Einar Jónsson. Í verkinu vinnur Einar á táknrænan hátt með andlega þróun mannsins og upprisu sálarinnar.

 

22. september 2020

Einar Jónsson hefur nám við Det Kongelige Akademi for de Skønne Kunster eða Listaakademíuna haustið 1896 og er höggmyndin Nemesis frá því ári. Verkið hefur verið í viðgerð um nokkurt skeið en er nú komið aftur „heim“ á safnið. Í listhugleiðslu þriðjudaginn 22. september var rýnt í verkið en myndefnið sækir Einar í rómverska goðafræði. Nemesis er gyðja jafnvægis á milli allra hluta, þar af leiðandi einnig gyðja hefndar og refsingar og gegnir hún svipuðu hlutverki og Skuld gerir í norrænni goðafræði.

 

 

15. september 2020

Einar Jónsson vann að Kristsmynd árið 1946. Verkið er rúmir þrír metrar á hæð. Í listhugleiðslu þriðjudaginn 15. september var verkið skoðað og íhugað.
Einar Jónsson hófst handa við að gera Kristsmyndina eða Kristsstyttuna eftir að hafa séð mynd af líkklæðinu frá Tórínó. Líkklæðið frá Tórínó er einn frægasti og mest rannsakaði hlutur kirkjuverka. Því hefur verið haldið fram að þar sé um að ræða líkklæði Krists, og því til stuðnings er mynd sem tekin var árið 1898, sem sýnir negatívu myndina af andliti Krists og síðar kom í ljós negatív mynd líkamans alls. Enn eru skiptar skoðanir hvort um sé að ræða líkklæði Krists.

Til gamans má benda á að í bók sinni Skoðanir hefur Einar þessi orð um Krist: 
„Hann er kærleikurinn sjálfur, von vor og huggun, hann er vegurinn, sem óvitar og sakleysingjar rata, hann er sannleikurinn, sem aldrei svíkur, hann er lífið sjálft.“ (Skoðanir bls. 197)

 

 

8. september 2020

Draumur og dagsverk frá árinu 1953, lágmynd eftir Einar Jónsson, var skoðuð í listhugleiðslu þriðjudaginn 8. september. Verkið er í raun afar sérstakt þar sem það er hið síðasta verk sem Einar lauk við á sínum einstaka listamannsferli.

 

 

1. september 2020

Septembermánuður þetta árið byrjaði með sannkallaðri hátíðarstemningu á Listasafni Einars Jónssonar. Hugleitt var við höggmyndina Natura Mater frá árinu 1906 en auk þess lék Laufey Sigurðardóttir, fiðluleikari, tvo kafla úr Partítu II í d-moll eftir Bach. 

Laufey hélt síðan tónleika laugardaginn 5. september á safninu og lék þá alla Partítu II í d-moll.

 

 

18. ágúst 2020

Í listhugleiðslu þennan daginn var hið margslungna verk Einars Jónssonar Vökumaðurinn frá 1902 skoðað. 
Samkvæmt íslenskri þjóðtrú er vökumaður sá sem fyrstur er grafinn í nýjum kirkjugarði. Lík hans rotnar ekki sem gerir það að verkum að hann vakir yfir garðinum og öllum þeim sem á eftir koma og hvíla í garðinum. Hlutskipti vökumannsins þótti sannarlega ekki eftirsóknarvert.