Gengið er inn í höggmyndagarð safnsins frá Freyjugötu og er hann alltaf opinn og aðgangur að honum ókeypis.
Höggmyndagarður Listasafns Einars Jónssonar var formlega opnaður 8. júní árið 1984. Framkvæmdir höfðu staðið yfir í þónokkurn tíma og margir komið að þeirri vinnu. Forstöðumaður safnsins var þá Ólafur Kvaran. Reynir Vilhjálmsson og Ragnhildur Skarphéðinsdóttir landslagsarkitektar sáu um skipulag garðsins. Steinþór Sigurðsson listmálari valdi verkunum stað, Einar Þorgeirsson skrúðgarðsmeistari sá um alla garðyrkjuvinnu og Ólafur Auðunsson húsasmíðameistari steypti stöplana.
Einar og Anna lögðu mikla vinnu í að rækta garðinn á meðan þau bjuggu í safnhúsinu og er sagt að Einar hafi sjálfur gróðursett allar plönturnar. Enda þótt garðurinn sé mikið breyttur frá þeirra tíð, hefur Einar upphaflega sett niður elstu trén. Einnig má ennþá sjá hluta af þeim hleðslum sem hann lét koma fyrir í garðinum. Sérstaklega eftirtektarverður er steinhringurinn á svæðinu suðaustan við safnbygginguna. Í garðinum eru 26 eirafsteypur af verkum Einars. Verkunum Alda aldanna og Bæn hafði verið komið fyrir í garðinum áður en vinna hófst við núverandi skipulag garðsins. Sum verkin voru steypt í tíð Einars og voru áður innan veggja safnsins. Þau voru síðan færð út í garð ásamt nýjum afsteypum.
Einar Jónsson lét eftir sig sjóð til þess að kosta afsteypur af verkum sínum eftir sinn dag. Því má segja að með þeim sjóði hafi hann lagt drögin að höggmyndagarðinum.
Garðurinn er nú opinn allt árið og er vinsæll viðkomustaður hvort sem er um sumar, vetur, vor eða haust.