Annálar

LEJ - annáll 2021

Listasafn Einars Jónssonar (LEJ) þakkar gestum og gangandi fyrir hið stórmerkilega ár 2021. Jörðin skalf (og þar með stytturnar í safninu), eldgos hófst í Geldingadölum og Covid19 hélt áfram að setja svip sinn á öll svið samfélagsins. Árið var, þrátt fyrir ófáar áskoranir sem glíma þurfti við, líflegt og skemmtilegt. Við skipulagningu starfsársins 2022 í LEJ var litið yfir farin veg og hér má lesa um það helsta.

HAGRÆÐING, FRAMKVÆMDIR OG VIÐURKENNING
Í byrjun árs 2021 voru stöðugildi safnsins 3,6 á ársgrundvelli en lækkuðu niður í 2,5 á árinu vegna hagræðingar í rekstri. Alla jafna starfa um tíu manns hjá safninu, sjö konur og þrír karlar. Flestir starfa við afgreiðslu og upplýsingagjöf á vöktum sem miða við opnunartíma safnsins en tveir starfsmenn skipta með sér ræstingum á mánudögum þegar safnið er lokað. Á skrifstofu LEJ starfa að jafnaði tveir starfsmenn. Safnið var opið 10-17 alla daga nema mánudaga fyrri hluta árs en opnunartíminn var styttur í 12-17 í byrjun maí vegna hagræðingar. Aðgangseyrir var einnig hækkaður en samhliða þeirri hagræðingar aðgerð var hannað árskort og boðið til sölu í fyrsta sinn í sögu safnsins! Aðgangseyrir er kr. 1500 en árskort kostar kr. 3000. Gestatölur LEJ fyrir árið 2021 voru samtals 7784 gestir (5184 í raunheimi, 2600 í netheimi) og er það töluverð fjölgun á milli ára þó gestir í raunheimi mættu vera fleiri.

Framkvæmdir vegna rakaskemmda á skrifstofuhúsnæði safnsins voru á lokastigi í upphafi árs en þær höfðu staðið yfir frá miðjum ágúst 2020. Skrifstofan var því enn í gula sal á neðstu hæð safnsins í byrjun árs. Það var mikið fagnaðarefni að fá nýuppgert skrifstofuhúsnæðið afhent til notkunar 1. mars og hófst þá skipulag við flutninga og frágang. Tæma þurfti geymslur út í bæ og ráða forvörð til að hreinsa illa farin tvívíð verk áður en þeim var komið fyrir í geymslu inn af skrifstofu. Hreinsun verka og endanlegur frágangur er enn í vinnslu því farga þurfti hillum og skápum vegna myglu og fara þarf markvisst í gegnum heilmikið af gömlum gögnum.

Haustið 2020 samþykkti stjórnarnefnd safnsins að undirbúa umsókn um viðurkenningu safnsins hjá safnaráði og var það verkefni í forgangi árið 2021. Búa þurfti til reglur safnsins frá grunni, starfsreglur stjórnarnefndar og uppfæra reglur um afsteypusjóð sem komnar voru til ára sinna. Þá voru stefnur safnsins einnig mótaðar frá grunni og öryggismálin tekin föstum tökum með tilheyrandi úttektum, neyðaráætlunum o.þ.h. Bera þurfti hluta gagna undir ráðuneyti til staðfestingar og umsókn var skilað 31. ágúst 2021. Það voru því afar ánægjuleg tíðindi 10. des. þegar safnaráði tilkynnti að Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra (frá og með 28. nóvember 2021 áður menningar- og menntamálaráðherra), samþykkti að veita safninu formlega viðurkenningu. Þetta var risastór áfangi fyrir lítið safn og miklar gleðifréttir fyrir faglega umgjörð starfseminnar sem er nú þegar komin í betra horf vegna styrkveitinga

HRÆRINGAR OG ÞRÓUN DAGSKRÁR
Undirbúningur og skipulagning fyrir Vetrarhátíð 2021 hófst snemma í janúar hjá starfsfólki LEJ en hátíðin fór fram dagana 4.-7. febrúar. Höggmyndagarðurinn var vettvangur einstaks verðlauna- og opnunaratriðis hátíðarinnar Samlegð/Synergy eftir listafólkið Katerina Blahutova og Þorstein Eyfjörð Þórarinsson og spilaði safnið stóran þátt í því þar sem verki þeirra var varpað á bakhlið safnsins. Listaverkið var frumlegt ljós- og hljóðverk sem unnið var út frá listaverkum Einars og hljóðum úr safninu auk þess sem það bauð upp á gagnvirkni. Sýningargestum var boðið að taka virkan þátt í listaverkinu með nýjustu tækni sem gerði þeim kleift að stjórna útliti þess á veggjum safnsins auk þess að hafa áhrif á framvindu hljóðsins sem ómaði um höggmyndagarðinn. Það má því segja að Samlegð/Synergy hafi verið valdeflandi listaverk sem beindi athygli gesta að verkum Einars Jónssonar myndhöggvara og glæddi arfleið hans og Önnu lífi og litum. Covid19 setti þó svip sinn á hátíðina en gildandi fjöldatakmarkanir kröfðust þess að einungis 20 manns var hleypt inn í höggmyndagarðinn í einu. Rúmlega 1500 manns lögðu þó leið sína um höggmyndagarðinn á meðan hátíðinni stóð.

Í febrúar skalf jörðin á suðurhorninu og starfsfólk LEJ gerði í framhaldinu viðeigandi ráðstafanir innan safnsins til þess að koma í veg fyrir slys á gestum og varðveita höggmyndir og aðra muni í hættu. Brjóstmyndasýningin á jarðhæð safnsins raskaðist þannig tímabundið þegar nokkrar portrettmyndir eftir Einar voru færðar niður á gólf á meðan óvissuástandið ríkti. Einnig var höggmyndin Viktoría drottning (1912) færð úr gryfjunni á jarðhæð þar sem hún færðist mikið til í skjálftunum. Traustari stöpull var byggður undir verkið og það fært með aðstoð fagaðila þar sem verkið er mjög stórt og þungt. Í kjölfar endurtekinna skjálfta voru forverðir fengnir til að skoða ástand höggmyndanna í safninu og fyrstu skref tekin við gerð forvörsluáætlunar sem nú er í vinnslu. Ástandið ýtti einnig undir forvitni hjá starfsfólki LEJ varðandi viðhorf Einars til jarðskjálfta. Í bók Einars Minningar skrifar hann um mikilvægi þess að gera viðeigandi ráðstafanir við byggingu Hnitbjarga og segir m.a.:

„Ég kom vitaskuld með stærri bónir, svo sem um járn í steypuna, því að ég minnti hann [háttsettur embættismaður] á, að land vort væri jarðskjálftaland, og væri aumt að vita til þess, aðeins fyrir nokkra tugi króna, að gera húsið ekki aðeins ónýtt, heldur og að eiga það líka á hættu, að allt mitt lífsverk væri í veði, og ef til vill yrði þessi vandræða sparsemis-útbúnaður því öllu fyrr eða síðar að tjóni.“ (Einar Jónsson 1944, bls. 280)

Mestöll starfsemi safnsins árið 2021 var lituð af annmörkum vegna Covid-19 heimsfaraldursins, fyrir utan nokkrar vikur í sumar þegar öllum samkomutakmörkunum var aflétt. Safnið þurfti blessunarlega ekki að loka á árinu eins og 2020. Engu að síður var grímuskylda í safninu bæði fyrir gesti og starfsfólk meirihluta árs vegna þrengsla í rýmum þar sem erfitt er að halda tveggja metra fjarlægð og vöntunar á vélrænni loftræstingu í húsið. Þrátt þessar áskoranir var líf og fjör innan sem utan veggja safnsins. Fyrstu hóparnir komu í heimsókn í byrjun janúar, bæði á eigin vegum og í leiðsagnir, og var ánægjulegt að fá gesti í heimsókn.


Nemesis (1896), ein af elstu höggmyndum Einars, kom úr viðgerð 2020 og var komið tímabundið fyrir í græna sal á neðri hæð safnsins. Verkið var hins vegar fært í bláa sal á miðhæð safnsins á árinu þar sem það á betur heima og tekur sig einstaklega vel út á milli Ingólfs og Öldu aldanna. LEJ var opið yfir páskana en einungis var hægt að taka á móti allt að níu gestum í einu og grímuskylda í gildi. Nágrannar okkar í Listvinafélagi Hallgrímskirkju stóðu fyrir ljóðadagskrá 24. apríl, þar sem Arngunnur Árnadóttir, Fríða Ísberg og Ægi Þór Jähnke fluttu frumsamin ljóð í nýmáluðum græna sal. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hélt utan um dagskránna og fiðluleikarinn Björg Brjánsdóttir lék einleik á milli atriða.

Listhugleiðslan hélt áfram göngu sinni fyrri hluta árs. Halla Margrét Jóhannesdóttir safnvörður og yogakennari hafði umsjón með dagskrárliðnum hvert þriðjudagshádegi þar til hún hvarf til annarra starfa í lok apríl. Listhugleiðslan hlaut mikla og jákvæða athygli á árinu sem fyrr og gerðar voru tilraunir til að útfæra dagskrárliðinn að breyttu landslagi. Þegar fjöldatakmarkanir komu í veg fyrir að hægt væri að bjóða upp á listhugleiðslu í raunheimi sendi safnið frá sér góða (rafræna) strauma út í samfélagið. Það var fyrir tilstuðlan  styrks frá Lýðheilsusjóði sem tækifæri gafst til þess að streyma listhugleiðslunni beint til áhugasamra á facebook-síðu safnsins. Alls var streymt 6 sinnum og fylgdust allt að 2600 manns með þeim. Höllu Margréti er þakkað kærlega fyrir mikilvægt frumkvöðlastarf innan veggja LEJ og óskað farsældar á nýjum vettvangi.

Þróuð var dagskrá sem kallast Hugleiðum...list/safn/LEJ sem segja má að sé sjálfstætt framhald listhugleiðslunnar. Til stóð að halda dagskránni gangandi út árið en margra hluta vegna tókst það ekki. Í lok árs fékkst hins vegar styrkur úr safnasjóði til þess að þróa verkefnið áfram og verður því komið í fastari farveg með hækkandi sól á nýju ári. Fyrsti viðburðurinn undir þessum dagskrárlið var haldinn á afmælisdegi Einars 11. maí sem tilraun til að veita innsýn í starf safnsins og máta hugmyndina um furðusafnið við LEJ. Haldið var áfram að skoða valin listaverk með hæglæti (slow art) líkt og í listhugleiðslunni og er sú nálgun vinsæl á listasöfnum víða um heim. Auk þess var gestum boðið að prófa aðferð sem kallast sjónræn hugsun (visible thinking) og á hún rætur sínar að rekja til Harvard háskóla og Project Zero verkefnisins og tengist fjölgreindakenningu Howard Gardners þ.e.a.s. að fólk lærir á mismunandi vegu. AlmaDís safnsstjóri sá um viðburðinn. Annar viðburður undir þessum hatti átti sér stað 18. maí og kallaðist Hugleiðing um hús: Hnitbjörg með Pétri Ármanns á alþjóðlegum safnadegi. Pétur er arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands. Hann hélt fróðlegt erindi í höggmyndagarðinum við safnið og fjallaði um sérstakan sess safnsins í íslenskri byggingarlist. Pétur ræddi sérstaklega um tilkomu hússins og uppbyggingu þess á árunum 1916-1920 en Hnitbjörg er eitt af fyrstu steinsteyptu húsunum sem reist voru í Reykjavík á 20. öld. Arkitektúr hússins er því talinn einstakur. Í dag er húsið alfriðað sem setur starfsemi safnsins oft áhugaverðar skorður. Pétur nefndi einnig að til stendur að reisa viðbyggingu við safnið á allra næstu misserum sem á eftir að auka möguleika í starfsemi þess verulega til framtíðar. Viðburðurinn heppnaðist einstaklega vel og var ágætlega sóttur miðað við aðstæður. Hildur Arna sérfræðingur sá um viðburðinn en í lok júlí hvarf hún til annarra starfa. Hildi Örnu er þakkað kælega fyrir mikilvægt framlag til starfsemi safnsins og óskað farsældar á nýjum vettvangi.

Listsköpun Einars Jónssonar mætti síðan tískunni, þegar Hönnunarmars fór fram dagana 19.–23. maí og fatahönnuðirnir Sif Benedicta og Drífa Líftóra héldu tvær aðskildar sýningar í LEJ og sameiginlega tískusýningu á neðstu hæð safnsins. Sýningarnar voru vel sóttar og tískusýningin heppnaðist einstaklega vel.


Eftir tilfæringar vegna Hönnunarmars var ákveðið að gera arfleiðsluskrá Einars og Önnu sýnilegri í safninu og hún hengd upp á jarðhæð safnsins þar sem gestum gefst nú tækifæri á að skoða hana orð fyrir orð.


Safnið var enn sem fyrr í samstarfi við Kramhúsið í sumar sem þýddi mikið stuð í höggmyndagarðinum með tilheyrandi tónlist og dansi. Bjarni Már og Tumi Torfason fluttu frumsamin verk í bláa sal á blíðviðrisdegi í júlí og streymdu gestirnir að. Undir lok sumars voru gluggar og hurðir málaðir að utan. Annars einkenndist haustið af fjölbreyttri tónlist. Í byrjun október hélt sönghópurinn Garún opna söngæfingu í safninu fyrir gesti og gangandi en þeim áformum hafði verið frestað um hríð vegna Covid. Helgina 23.–24. október fór tónlistarhátíðin WindWorks fram á nokkrum söfnum í Reykjavík. Hátíðin er helguð nútímatónlist fyrir blásturshljóðfæri og hófst hún í LEJ við góðar undirtektir. Tónleikarnir voru fjórir talsins í safninu og höfðu gestir tækifæri til að skoða safnið á milli tónleikanna.

VALDEFLANDI SAMSTARF
Í lok maí hlaut LEJ, í samstarfi við verkfræðistofuna EFLU og List fyrir alla, styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir verkefnið Stafrænar styttur. Gerðar voru myndmælingar á völdum verkum Einars og útbúnir svokallaðir stafrænir tvíburar sem hægt er að skoða gagnvirkan hátt í tölvu og/eða snjalltækjum. Starfsfólk safnsins mótaði kennslufræðilega nálgun verkefnisins og setti saman veglegan fræðslupakka sem nálgast má á heimasíðu safnsins. LEJ var safn vikunnar í þættinum Sumarmál á Rás 1 þann 10. ágúst og mættu AlmaDís og Þröstur, samstarfsaðili verkefnisins frá EFLU, í þáttinn til að segja frá verkefninu. Þann 25. ágúst var þeim boðið í Morgunútvarpið á Rás 2 þar sem þau sögðu nánar frá áformum um verkefnið. Í desember samþykktu tveir skólar á höfuðborgarsvæðinu að prufukeyra verkefnið.


Elfa Lilja frá List fyrir alla, AlmaDís safnstjóri í LEJ, Þröstur Thor
miðlunarfræðingur hjá EFLU og Lilja Alfreðsdóttir mennta -og menningarmálaráðherra. Mynd tekin í Hörpu þegar styrkveitingar voru kynntar.

Þann 3. sept. bauð List fyrir alla, í samstarfi við LEJ, fræðslufulltrúum og forstöðumönnum allra safna, menningahúsa, menningasetra og sýninga á landinu ásamt menningarfulltrúum, Mennta- og menningarmálaráðuneyti og formanni barnamenningarsjóðs í heimsókn í safnið. Tilefnið var opnun vefsíðunnar Menning fyrir alla sem er yfirlit yfir alla staði sem sinna barnamenningu á landsvísu. Safnstjóri hélt þar stutt ávarp og kynnti samstarfsverkefnið Stafrænar styttur fyrir gestum. Þá tók LEJ þátt í fyrsta sinn í sameiginlegu kynningarátaki safna á höfuðborgarsvæðinu þann 7. október sem kallast Uppspretta og er sérstaklega sniðið að kennurum leik- og grunnskóla. LEJ lagði áherslu á að kynna Stafrænar styttur og almennt framboð safnsins í fræðslumálum.

LEJ hefur verið í virku samstarfi síðastliðin tvö ár við Félagsfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild Háskóla Íslands við útfærslu og framkvæmd námskeiðsins Söfn sem námsvettvangur. Námskeiðið er í boði innan safnafræði en er einnig opið nemendum á Menntavísindasviði. Nemendur í grunn- og framhaldsnámi hafa spreytt sig á að búa til námsefni fyrir mismunandi aldur safngesta í LEJ. Þann 27. september var staðlota haldin heilan dag í safninu þar sem nemendum var kynnt starfsemi safnsins í þaula til undirbúnings verkefnavinnu þeirra. Nemendur mættu síðan aftur í safnið þann 22. nóvember og kynntu hagnýt fræðsluverkefni sín á vettvangi með það að markmiði að tengja saman fræði og praktík. Með tíð og tíma verða verkefnin nýtt til að efla safnfræðslu LEJ.

Þá var LEJ baðað gulum litum í heila viku þegar safnið tók þátt í herferð Amnesty International Þitt nafn bjargar lífi, sem er stærsta árlega mannréttindaherferð í heimi.


ÁSKORANIR
Þann 3. maí voru unnin skemmdarverk á lágmyndinni Brautryðjandanum á Austurvelli eftir Einar Jónsson og vakti málið töluverða athygli. Tekin voru viðtöl við ÖlmuDís safnstjóra og Sigurð Trausta Traustason stjórnarnefndarformann um málið. AlmaDís benti á að LEJ hefur ekki umsjón með listaverkinu og að ábyrgð á forvörslu útilistaverka í eigu ríkisins mætti vera skýrari þar sem sum verk eru í forsjá Mennta- og menningarmálaráðuneytis og önnur hjá Forsætisráðuneyti. Brugðist var hratt við skemmdarverkinu með aðstoð og ráðgjöf forvarðar Listasafns Reykjavíkur og unnu tveir menn heilan dag við að hreinsa verkið. Viðgerð lauk 7. maí og í kjölfarið var farið í viðgerðir á fleiri útilistaverkum eftir Einar Jónsson eins og Kristjáni níunda og Hannesi Hafstein við stjórnarráðið. Einnig stendur til að gera við styttuna af Jóni Sigurðssyni en Brautryðjandinn er á fótstalli styttunnar fyrir framan Alþingishúsið.

Brautryðjandinn fyrir og eftir hreinsun:
Þann 24. júní varð LEJ 98 ára og það styttist því sannarlega í 100 ára afmælið. Af því tilefni birti AlmaDís safnstjóri stuttan pistil um tilvonandi viðbyggingu LEJ. Þar ræðir hún um stöðu safnsins og segir að mögulega vanti ofninn til að baka afmæliskökuna, þ.e.a.s. grunnstoðirnar til þess að eiga möguleika á að halda upp á stórafmæli safnsins 2023. Í nóvember skilaði ráðuneytið og LEJ frumathugun til framkvæmdasýslu ríkisins og beðið er eftir viðbrögðum frá þeim hvað þessi mál varða.

Mynd af áætlaðri staðsetningu viðbyggingar samkvæmt hönnun Studio Granda (Fréttablaðið, 23. nóvember 2010)

TIL GLÖGGVUNAR Á STARFSEMI SAFNSINS
LEJ hefur verið starfrækt frá árinu 1923 og er fyrsta listasafn landsins sem opnað var almenningi í eigin húsnæði. Safnið starfar í almannaþágu og heyrir undir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Listasafn Einars Jónssonar er í senn rótgróið og forvitnilegt listasafn frumkvöðuls í íslenskri myndlist. Safnið er staðsett í þriggja hæða alfriðuðu húsi á Skólavörðuholti umleikið viðamiklum höggmyndagarði. Frá sjónarhóli byggingarlistar er safnhúsið Hnitbjörg sveipað ævintýrablæ og er einstök perla í miðborg Reykjavíkur. Sýningarrými safnsins eru magnþrungin og söguleg. Listasafn Einars Jónssonar er fyrsta listasafn landsins sem opnað var almenningi í eigin húsnæði árið 1923. Safnið hýsir vinnustofur myndhöggvarans frá fyrri tíð ásamt fyrstu þakíbúð Reykjavíkur sem áður var hluti af heimili Einars og Önnu og er nú varðveitt sem slíkt. Safnstjóri er AlmaDís Kristinsdóttir. Henni til ráðgjafar er fimm manna stjórnarnefnd. Hana skipuðu í lok árs 2021: Sigurður Trausti Traustason, formaður stjórnarnefndar, Hjalti Hugason, Laufey Guðjónsdóttir, Pétur J. Eiríksson og Sesselja Snævarr.

Takk fyrir 2021! Verið öll velkomin á LEJ 2022 #sjáumstásafninuLEJ - annáll 2020

Við skipulag starfsársins 2021 í Listasafni Einars Jónssonar (LEJ) er gott að staldra aðeins við og líta til baka. Árið 2020 var sérstakt um margt vegna innri og ytri aðstæðna eins og safnstjóraskipta og Covid19-heimsfaraldurs en var engu að síður annasamt, áhugavert og skemmtilegt. Hér má lesa um það helsta.

Til glöggvunar má nefna að LEJ hefur verið starfrækt frá árinu 1923 og er fyrsta listasafn landsins sem opnað var almenningi í eigin húsnæði. Unnið er eftir arfleiðsluskrá Einars Jónssonar myndhöggvara sem gaf ævistarf sitt íslensku þjóðinni. Safnið er því ríkisstofnun og heyrir undir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í safninu starfa 10 manns, 7 konur og 3 karlar, en stöðugildin eru 3,6 á ársgrundvelli. Safnstjóri er AlmaDís Kristinsdóttir.

Samkvæmt erfðaskrá starfar fimm manna stjórn í safninu, safnstjóra til ráðgjafar, og hana skipuðu í lok árs:, Sesselja Snævarr formaður stjórnar, Hjalti Hugason, Laufey Guðjónsdóttir, Pétur J. Eiríksson og Sigurður Trausti Traustason. Sigurður Trausti kom nýr inn í stjórn 25. febrúar 2020 í stað Sigríðar Thorlacius meðstjórnanda sem hætti í lok árs 2019 eftir fimm ára stjórnarsetu.

Eins og sakir standa fara fjárheimildir safnsins að mestu í húsaleigu og launakostnað. Það er engu að síður hlutverk LEJ að safna, varðveita, rannsaka og miðla þeim menningararfi er tengist safninu. Safnkostinum má skipta í fernt: listaverk Einars Jónssonar sem eru til sýnis í safninu; munir í íbúð Önnu og Einars; safnið sjálft sem friðað hús ásamt höggmyndagarði þess; og að lokum safngripir í varðveislurýmum safnsins.

SÖFNUN OG VARÐVEISLA
Safnið varðveitir hátt á þriðja hundrað verk sem spanna sextíu ára starfsferil Einars Jónssonar myndhöggvara; útskorin æskuverk, höggmyndir, málverk og teikningar. Einnig varðveitir safnið mikið af persónulegum munum Einars Jónssonar og Önnu Jónsson og er hluti þeirra sýndur í þakíbúð sem er hluti af safninu. Í ár var lögð áhersla á að skrá muni á skrifstofu Einars í Sarp; eftir þá vinnu eru skráð verk og munir í gagnagrunninum nú orðin um 350. Fjöldi bóka í safni Önnu og Einars er um 2400. Engin forvörsluverkefni áttu sér stað á árinu vegna fjárskorts og tímaleysis en í lok maí var einni af elstu höggmyndum Einars Jónssonar, Nemesis frá árinu 1896, komið fyrir í græna sal til sýningar eftir að hafa verið í viðgerð utan safns um langt skeið.

Safninu bárust ábendingar frá Þjóðskjalasafni á árinu um mikilvægi þess að sinna skjalastjórnun á markvissan hátt. Fyrsti liður í því verkefni var að sitja námskeið um geymslu rafrænna gagna í nóvember.

RANNSÓKNIR
Þær rannsóknir sem áttu sér stað á árinu tengdust meðal annars tilraunum til að byggja upp fræðslustarf safnsins og samfélagslegt hlutverk þess með umsókn í Barnamenningarsjóð og þátttöku í alþjóðlegu verkefni til að sinna þörfum Alzheimerssjúklinga og aðstandendum þeirra á söfnum. Hvorugur styrkurinn fékkst. Sótt var um í Lýðheilsusjóð í haust til að efla listhugleiðslu á LEJ enn frekar en niðurstöður styrkveitingar bárust ekki fyrir árslok. Þá voru gerðar tilraunir til Evrópusamstarfs og var safnið aðili að tveimur stórum umsóknum; EMMAH (The Network of European House Museums, Artist Homes and Heritage Sites) til að styrkja tengingar á milli evrópskra safna og menningarstaða, styrkurinn fékkst ekki; og Erasmus-verkefnið UpCreate þar sem lögð er áhersla á þverfaglega vinnu og sköpun með ungu fólki á aldrinum 13-30 ára. Umsóknaraðilar eru sjö í fimm löndum og er niðurstöðu um styrkveitingu beðið. Þá var fundað með Henny Hafsteinsdóttur arkitekt vegna pælinga um upprunaleika safnsins og möguleikum um að koma húsinu á heimsminjaskrá Unesco en verkefnið er í biðstöðu vegna skorts á fjármagni.

Í Covid-lokun haustsins voru gerðar rannsóknir á innra starfi safnsins með stefnumótunarvinnu á teymisstriga þar sem starfsfólk greindi starfsemi LEJ, hlutverk og möguleika í hópavinnu. Vinnan varpaði ljósi á styrk safnsins, veikleika og tækifæri og á án efa eftir að nýtast í daglegu starfi til framtíðar. Sem liður í undirbúningi lögbundinnar styttingar vinnuvikunnar var farið í greiningarvinnu á fyrirkomulagi vakta og vinnutíma. Einnig var viljayfirlýsingu stjórnar um að sækja um viðurkenningu skilað til Safnaráðs í október og undirbúningur við söfnun og vinnslu gagna fyrir umsóknina hafin.

Þriðjudaginn 20. október varð stór jarðskjálfti á höfuðborgarsvæðinu sem skók starfsfólk, safnbyggingu og höggmyndir allhressilega. Hallgrímskirkjuklukkur slógu aukaslag. Engir gestir voru í húsi kl. 13:43 þegar jörð hristist og sem betur fór voru allir heilir á eftir. Við skoðun eftir skjálftann kom í ljós að hárfínar sprungur sem höfðu áður myndast í verkinu Vor höfðu dýpkað og þyrfti því að rannsaka verkin öll nánar með tilliti til skemmda eftir skjálftann. Engar afleiðingar voru sjáanlegar á safnbyggingunni en í þakíbúð hafði mynd á vegg skekkst við höggið.

MIÐLUN
Viðburðir voru í lágmarki vegna heimsfaraldurs Covid19 sem hafði einnig mikil áhrif á gestakomur. Í ár heimsótti safnið 4241 gestur en þeim fækkaði um 60% frá fyrra ári. Munaði þar mestu um fækkun erlendra ferðamanna, skólahópa, almennra móttaka og niðurfellingu viðburða.

Skólahópar komu í fræðsluheimsóknir í byrjun árs, hóparnir fengu ýmist leiðsagnir um safnið eða skoðuðu á eigin vegum og þá gjarnan til að skissa eftir verkum Einars. Einnig var í upphafi árs unnið að skipulagningu fyrir hina árlegu Safnanótt á Vetrarhátíð. Safnanótt er ávallt fjölsóttur viðburður á Listasafni Einars Jónssonar og föstudagskvöldið 7. febrúar heimsóttu nærri 600 gestir safnið. Boðið var upp á tvær leiðsagnir með Hildi Örnu sérfræðingi á LEJ um kvöldið og tóku um 50 áhugasamir safngestir þátt. Starfsfólk sem sá um að manna allar hæðir safnsins, tók vel á móti gestum og svaraði spurningum.

Nýr viðburður, listhugleiðsla, hóf göngu sína í febrúar og var settur á vikulega dagskrá í hádeginu á þriðjudögum. Fyrirkomulag listhugleiðslunnar er þannig að fyrirfram er eitt verk valið til að fjalla um. Gestir skoða verkið fyrst í þögn frá ýmsum sjónarhornum, þá er hugleitt í 15 mínútur og að lokum er fræðsla. Stundin er afmörkuð við 40 mínútur. Viðburðurinn vakti strax athygli og fékk góðar viðtökur en um nýjung er að ræða í safnastarfi hér á landi. Covid19 og samkomutakmarkanir settu sitt mark á listhugleiðsluna eins og aðra starfsemi safnsins. Hlé var gert í mars og svo aftur í nóvember en skorðurnar gáfu þó líka af sér því að tvisvar var listhugleiðsla í beinu streymi á Facebook á haustmánuðum, sem náði til mun fleiri þátttakenda en hefðu getað komið á safnið. Listhugleiðslan hefur verið ágætlega sótt, aldrei orðið messufall, og flestir hafa gestir verið sextán talsins; yngsti 16 ára, elsti 96 ára. Þá vakti listhugleiðslan athygli fjölmiðla. Menningin á RÚV kom í heimsókn í vor og var með umfjöllun í sjónvarpinu og heilsíðuviðtal við Höllu Margréti Jóhannesdóttur, safnvörð og umsjónarkonu viðburðarins, birtist í Fréttablaðinu í nóvember.

Eftir lokun á vormánuðum jukust almennar gestakomur á safnið yfir sumarmánuðina þegar allt var opið. Þá og fram á haust var tekið á móti fjölbreyttum hópum í safnfræðslu. Nemar í safnafræði við Háskóla Íslands komu í heimsókn í júní og tóku upp fræðslumyndband vegna faglegs starfs safna. Í lok júlí var AlmaDís safnstjóri í viðtali í útvarpsþættinum Sumarmál á Rás 1 þar sem starfsemi LEJ var til umræðu í samstarfi við FÍSOS, Félag íslenskra safna og safnmanna.

Höggmyndagarðurinn var vel sóttur og á sólríkum sumardögum var þar mikið líf og fjör. Skemmtilegt samstarf var með viðburðum eins og Pop-up jóga Reykjavík sem poppaði tvisvar upp í garðinum með útijóga fyrir alla. Auk þess voru, í samstarfi við Kramhúsið og Sumarborgina, kenndir danstímar, magadans og burlesque, nokkrum sinnum undir berum himni í garðinum yfir sumarið.

Aðeins var tekið á móti gestum einn dag á meðan lokun safnsins stóð í nóvember. Þá komu nemendur úr Listaháskóla Íslands í heimsókn í höggmyndagarðinn í þremur litlum hollum þar sem fjölda- og fjarlægðartakmarkanir voru í heiðri hafðar við fræðsluna.

Síðla vetrar spjallaði AlmaDís safnstjóri við nemendahópa á Teams í námskeiðinu Söfn sem námsvettvangur um fræðsluverkefni þeirra og tók þátt í erindi Sigríðar Melrósar, fyrrverandi safnstjóra LEJ, þar sem hún fræddi nemendur um starfsemi safnsins undanfarin ár og þær hömlur sem arfleiðsluskrá safnsins hefur í för með sér. AlmaDís hélt svo fyrirlestur á námskeiðinu Íslensk listasaga, söfn og menntun á Menntavísindasviði HÍ og ræddi þar um list Einars og fræðslugildi safna.

Í takt við netfundalotur ársins og sérstakt Covid19-árferði var Vorfundur höfuðsafna haldinn á netinu að hausti og sat AlmaDís fundinn fyrir hönd safnsins. Einnig sótti hún ráðstefnuna Börn í forgrunni sem haldin var í október í samstarfi Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands. Árlegur Farskóli FÍSOS, Félags íslenskra safna og safnmanna, sem halda átti í haust var felldur niður vegna Covid19 og í staðinn var boðið upp á fjarfræðslu í formi fyrirlestra og vinnuhópa á netinu. Safnablaðið Kvistur kom þá einnig út og í tölublaðinu átti AlmaDís safnstjóri tvær greinar. Í lok október sat hún einnig samráðsfundi á netinu vegna Betri vinnutíma og innleiðingar styttingar vinnuviku. Á árinu sótti AlmaDís svo stafrænt námskeið sem kallast Visible thinking og er aðferð sem byggir á skapandi leiðum við miðlun á söfnum. Um þrjátíu aðilar frá tuttugu löndum sóttu námskeiðið.

SAFNSTJÓRASKIPTI
Síðla 2019 sagði Sigríður Melrós Ólafsdóttir, safnstjóri LEJ frá 2014, starfi sínu lausu og í lok febrúar var AlmaDís Kristinsdóttir ráðin nýr safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar.

Sigríður Melrós tók stór skref í sögu safnsins þegar hún ákvað að auka aðgengi gesta með því að lengja fastan opnunartímann vorið 2016 og hafa safnið opið sex daga í viku allan ársins hring. Frá þeim tíma hefur LEJ verið opið alla þriðjudaga til sunnudaga kl. 10-17. Í safnstjóratíð sinni viðhafði Sigríður einnig áhugavert samstarf við fjölbreytta aðila og hópa um alls kyns verkefni tengd safnastarfinu, hélt regluleg málþing, studdi útgáfu bókar um Einar Jónsson og setti upp eftirtektarverðar sýningar í samstarfi við listamenn og listnema. Sigríður Melrós hætti á LEJ 20. mars 2020 eftir sex farsæl ár sem safnstjóri LEJ.

Þar til safnstjóraskipti áttu sér stað í byrjun maí starfaði Hildur Arna sem staðgengill safnstjóra og brúaði bilið á meðan fyrri Covid-lokun safnsins stóð í mars og apríl. Þriðjudagurinn 4. maí var svo fyrsti opnunardagur safnsins eftir sex vikna lokun og jafnframt fyrsti starfsdagur ÖlmuDísar sem safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar.

AlmaDís lauk doktorsprófi í safnafræði frá Háskóla Íslands, mastersgráðu í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri og BFA prófi í hönnun frá Massachussetts College of Art í Boston. AlmaDís starfaði lengst af sem verkefnastjóri fræðslu hjá Listasafni Reykjavíkur og Borgarsögusafni Reykjavíkur. Hún hefur sinnt kennslu í deild Félags-, mann- og þjóðfræði við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands um árabil og var forstöðumaður Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla í Stykkishólmi. Þá starfaði hún við Listasafnið á Akureyri og Denver Art Museum í Colorado í Bandaríkjunum.

Fyrstu vikurnar var Sigríður Melrós fráfarandi safnstjóri ÖlmuDís innan handar við yfirfærslu verkefna og upplýsingar um starf og starfsemi. Skýra þurfti verkefnastöðu safnsins og nokkur stór mál komust á hreyfingu m.a. fyrirhuguð þjónustubygging sem lengi hefur verið á teikniborðinu. Fjárveitingu hefur verið lofað í bygginguna en málið er í vinnslu hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Yfirgripsmikil tæming skrifstofu safnsins varð einnig brýnt verkefni þar sem um heilsuspillandi áhrif var að ræða. Mygla hafði komið í ljós við úttekt í lok nóvember 2019 og til þess að hægt væri að gera viðeigandi ráðstafanir þurfti að rýma allt húsið. Þá var vefsíða safnsins óhreyfð um langa hríð vegna tæknilegra örðugleika. Þá varð nýjum safnstjóra ljóst að halli á rekstri safnsins myndi hafa töluverð áhrif á forgangsröðun verkefna og var það áskorun í sjálfu sér.

HEIMSFARALDUR COVID19
Í byrjun mars upphófst óvissuástand á safninu eins og í samfélaginu öllu þegar ljóst var að Covid19 væri komið til landsins. Gestakomum hafði farið fækkandi og þegar nálgaðist miðjan mars voru afbókanir skólahópa og ferðamannahópa orðnar tíðar. Smitvarnir og öryggi starfsfólks og gesta var því eitt stærsta verkefnið í starfsemi safnsins í mars. Í fyrstu hafði aðgengi að íbúð verið lokað, afgreiðsluborðið flutt inn í rúman bláa salinn úr þröngu anddyrinu og aukin þrif og smitvarnir settar á oddinn. Ekki var tekið á móti hópum eftir fyrstu takmarkanir.

Safninu var svo lokað eftir að hert samkomubann var sett á þann 24. mars. Í apríl sinntu starfsmenn LEJ því öðrum verkefnum en vanalega; tiltekt í safni og höggmyndagarði, frágangi, þrifum, skráningarvinnu, heimildaöflun og fleira. Starfsfólk sinnti öllum verkefnum af alúð og þolinmæði á þessum skrítnu Covid19-veirutímum og sýndi mikinn sveigjanleika hvað varðar verkefni og vinnustundir. Eftir 6 vikna lokun tilkynntu almannavarnir að söfn mættu loksins opna á ný þann 4. maí. Eftirvænting fyrir opnun eftir strangt samkomubann var orðin mikil. Einnig var tilhlökkun meðal starfsfólks að taka á móti nýjum safnstjóra í byrjun maí.

Samkomutakmarkanir og fjarlægðarmörk voru þó áfram í gildi og því voru starfseminni strangar skorður settar. Mannlífið á safninu glæddist þó mjög þegar skólahópar fóru að koma í safnfræðslu á ný en almennar gestakomur voru þó mun færri en á hefðbundnu vori.

Í október var Covid19-faraldurinn því miður aftur á uppleið í landinu og með auknum samkomutakmörkunum var tekin ákvörðun um að loka safninu um tíma frá og með 31. október. Á lokuðu safni í nóvembermánuði voru vinnustundir nýttar í ýmis þörf verkefni; meðal annars þrif, skrif, þýðingar og skráningar. AlmaDís safnstjóri vann að fjárhagsáætlunum komandi árs og mótaði stefnu safnsins ásamt Hildi Örnu til næstu þriggja ára. Eftir fjögurra vikna lokun opnaði safnið loksins aftur fyrir gesti á ný þann 3. desember, enn var 10 manna fjöldatakmörkun, fjarlægðarmörk tveir metrar og grímuskylda á safninu.

FRAMKVÆMDIR OG VIÐHALD
Ríkiseignir sjá um reglulegt viðhald og eftirlit með húsakosti safnsins; friðaðri safnbyggingunni, skrifstofuhúsnæði og geymslu. Annað viðhald fellur á stofnunina eins og skipti ljósapera í sölum og laufhreinsun úr niðurföllum á þaki.

Í janúar var komið að því að mála loft í rauða og gula sal auk gólfs í gryfju og einnig var stór öryggis- og eldvarnarúttekt gerð á safninu. Lokun vegna Covid í mars og apríl nýttist vel til framkvæmda og mættu málarar strax í hús til að mála og lakka stigahúsið þar sem engir voru gestirnir. Blái salur var svo málaður allur enda eitt þeirra rýma sem ekki er auðvelt að loka af þegar safnið er opið gestum.

Í lok maí var fundað vegna myglu sem greindist í skrifstofuhúsnæði safnsins og ljóst að fara þurfti í umfangsmiklar framkvæmdir á húsinu til að laga skemmdir og koma í veg fyrir raka. Upphaf framkvæmda var sett um miðjan ágúst og áætlað að verkið tæki um 6-8 vikur. Áður en hafist var fundað með Pétri Ármanns, arkitekt og sviðsstjóra hjá Minjastofnun, vegna menningarsögulegs gildis byggingarinnar en húsið sem hýsir skrifstofurnar var upphaflega byggt sem heimili Einars Jónssonar og Önnu Jónsson.

Í júlí var hafist handa við að pakka skrifstofunni fyrir flutningana. Ný skrifstofuaðstaða var útbúin til bráðabirgða í gula sal á jarðhæð safnsins. Forvörður veitti ráðgjöf varðandi meðferð muna fyrir flutning því að á skrifstofunni eru geymd verk, skjöl, bækur og persónulegir munir þeirra Einars og Önnu. Öllu var því pakkað eftir kúnstarinnar reglum og komið fyrir í geymslum. Flutningar fólu einnig í sér mikla og vandasama grisjun og ófáar ferðir voru farnar í Sorpu með gömul skrifstofuhúsgögn og annað sem mátti henda. Flutningum var að fullu lokið þann 15. ágúst og þá tók framkvæmdaferlið við.

Um miðjan október hafði umfang framkvæmda við skrifstofu aukist og ljóst að 8 vikur dygðu ekki til að klára. Var þá meðal annars farið í að leggja nýjan rafmagnskapal frá safni yfir á skrifstofu. Auknar framkvæmdir í skrifstofubyggingu hafa tafið verklok en í nóvember var vonast til þess að verkið yrði klárað fyrir jól. Í lok nóvember þurfti að rýma geymslu á jarðhæð safns vegna tenginga rafmagns á milli húsa og verkum úr geymslu var þá komið fyrir í gula sal. Þá var lag að koma upp ofnum til að hita kalt rýmið og í framhaldi af því var sett upp betri lýsing í loft og einangrun á vatnslögnum endurnýjuð. Í lok árs er ljóst að framkvæmdunum fer að ljúka og flutningar skrifstofunnar á sinn stað verða snemma á nýju ári.

HÖGGMYNDAGARÐUR
Í LEJ er jafnan að mörgu að huga bæði innanhúss og utan. Í höggmyndagarðinum við safnið eru til sýnis 26 bronsafsteypur af verkum Einars. Garðurinn er alltaf opinn og fjölsóttur allan ársins hring. Yfir háveturinn eru söndun og söltun við innganga safns og garðs meðal verka starfsfólks og einnig er garðurinn yfirfarinn alla virka daga og rusl fjarlægt.

Stórum og gróskumiklum almenningsgarði þarf líka að sinna vel á sumrin og um reglulega umhirðu, klippingar og slátt sá Ása Jóhannsdóttir garðyrkjufræðingur en hún hefur séð um garðinn af myndarskap undanfarin sumur. Einnig naut LEJ gleðilegs liðsinnis sumarhópa frá Landsvirkjun sem mættu tvisvar yfir sumarið í nokkra daga í senn og hreinsuðu illgresi, skáru kanta og sinntu öðrum nauðsynlegum garðverkum af krafti.

Um miðjan september var hliðum höggmyndagarðsins, sem annars er alltaf opinn, læst í nokkra klukkutíma á meðan þar var tekin upp sena í spennandi sjónvarpsþætti. Framkvæmdin gekk vel fyrir sig og það verður áhugavert að sjá útkomuna þegar þátturinn verður sýndur.

Takk fyrir 2020! Verið velkomin á Listasafn Einars Jónssonar 2021 #sjáumstásafninu

 

 

LEJ - annáll 2019

Við skipulag starfsársins 2020 á Listasafni Einars Jónssonar er gott að staldra aðeins við og líta til baka. Árið 2019 var einstaklega viðburðaríkt og skemmtilegt. Í annálnum okkar má nú lesa um það helsta.

Hér verður þó aðeins stiklað á stóru því á einstöku safni verður hver dagur einstakur í sjálfu sér -  með eftirminnilegum heimsóknum gesta á öllum aldri og fjölbreyttum viðburðum, skipulögðum sem óvæntum. Og auðvitað allri annarri daglegri starfsemi sem fram fer, bæði fyrir augum gesta og að tjaldabaki.

Takk fyrir 2019!

Janúar
Safnið var fullt af lífi og fjöri strax frá fyrstu dögum í upphafi árs en fyrstu nemendurnir mættu í leiðsögn á safnið fyrir Þrettándann. Það var hópur nema í leirmótun í Menntaskólanum við Sund sem komu í heimsókn til að kynna sér og rannsaka lágmyndir ásamt kennara sínum. Hóparnir frá MS eru meðal fjölda fastagesta og fjölda annarra hópa úr mennta-, grunn- og leikskólum höfuðborgarsvæðisins sem heimsækja safnið yfir árið til að kynna sér list og líf Einars Jónssonar. Og alltaf er jafn ánægjulegt að taka á móti þessu unga og áhugasama námsfólki.  

Garðurinn var að vanda fjölsóttur þrátt fyrir vetrartíð, en kuldi og hálka hélt starfsfólki, sem fyrri vikur, uppteknu við nær daglegan mokstur, söltun og söndun. Tveir listnemar við Myndlistaskólann í Reykjavík, þær Ragnheiður og Þórunn, vöktu rækilega athygli gesta og gangandi í höggmyndagarðinum þegar þær unnu þar að lokaverkefni sínu í ljósmyndun einn eftirmiðdaginn. Snjórinn sem lá yfir garðinum varð einnig fleiri gestum innblástur til skapandi snjókarla- og kerlingagerðar sem gladdi starfsfólk og gesti.  

Febrúar og mars
Febrúar var annasamur, spennandi og skemmtilegur á Listasafni Einars Jónssonar þegar Andsetning, sýning þeirra Önnu Hallin og Olgu Bergmann, sett upp og opnuð. Þeim Olgu og Önnu til aðstoðar við uppsetninguna og tæknimál var Ásgerður Birna Björnsdóttir. Sýningin, sem var samleikur vídeóverka listakvennanna við höggmyndir Einars og safnbygginguna, var opnuð að viðstöddu fjölmenni á Safnanótt Vetrarhátíðar föstudaginn 8. febrúar 2019. Andsetning gaf tilefni til spennandi viðburða eins og listamannaspjalls, leiðsagnar safnstjóra og sérstakra nemendaleiðsagna. Sýningin hreyfði sannarlega við andanum í Hnitbjörgum og vakti mikla athygli yfir sýningartímann; og svo fór að sýningarlokum var frestað og lauk Andsetningu þeirra Önnu og Olgu þann 10. mars.  

Ólafur Kvaran, prófessor í listasögu og fyrrverandi safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar, leiddi áhugasama safngesti um safnið einn sunnudagseftirmiðdag síðla í mars og fræddi um verk Einars. Góður rómur var gerður að leiðsögn Ólafs sem opnaði augu gesta fyrir einstökum táknheiminum í list myndhöggvarans.   

Garðskálinn við safnið varð svo áfangastaður á Hönnunarmars þegar hönnuðurnir í URРog wolf.town tóku höndum saman og sköpuðu forvitnilegan sápuskúlptúr sem stóð í skálanum yfir helgina og laðaði að bæði unnendur lista og hönnunar. Í marsmánuði fengum við svo einnig einstaklega ánægjulega tilnefningu í Reykjavík Grapevine sem eitt af bestu söfnum borgarinnar.  

Apríl
Gömul friðuð bygging þarfnast stöðugs viðhalds og sjá Fasteignir ríkisins um það vandasama verkefni að hafa eftirlit með húsakosti safnsins og laga það sem laga þarf. Það er mikil kúnst að sinna viðhaldi innan um ómetanlegar þjóðargersemar og í apríl mættu sérfróðir málararnir og máluðu Kapelluna, sem svo kallast, en þar er loftið fagurblátt og veggir heiðgulir.    

Í apríl voru nemendur úr alþjóðlegu meistaranámi í myndlist við Listaháskóla Íslands sem og nemendur í sýningarstjórnun við Háskóla Íslands fyrirferðarmiklir á safninu; en þá unnu þau að sameiginlegu verkefni við uppsetningu og skipulag myndlistarsýningar sem stóð frá 13.–28. apríl. Sýningin bar yfirskriftina Afsakið ónæðið – tímabundin truflun í Listasafni Einars Jónssonar. Í sýningarskrá sagði meðal annars: „Einar taldi listarinnar best notið í kyrrð, fjarri ágangi auglýsinga til að forðast það að hégómleiki ríkti fremur en listin og setti því skýrar reglur um umgengni og meðferð verka hans í safninu. Með sýningunni er gert stutt hlé á viðvarandi aðstæðum safnsins í þeim tilgangi að sjá rýmið og verkin með öðrum augum og koma jafnvel auga á eitthvað sem var áður óséð. Tíu listamenn úr mismunandi áttum frá hinum ýmsu löndum munu tefla fram tíu ólíkum sjónarhornum á Einar Jónsson, verk hans og á sama tíma á safnið sem sýningarrými.“ Sýningin var vel sótt og sáu nemendur um listamannaspjall og gjörninga á opnun og einn eftirmiðdag á meðan á sýningunni stóð.   

Maí
Með hækkandi sól í maímánuði tók starfsfólk safnsins að undirbúa þriðju sýningu ársins; sýningu á brjóstmyndum Einars, sem var afar öflugur í brjóstmyndagerð á sínum ferli. Í geymslum safnsins eru varðveittar um 40 brjóstmynda hans og voru 14 þeirra valdar til sýninga. Ákveðið var að sýna brjóstmyndirnar þar sem áður var eldhús þeirra hjóna, Einars og Önnu, á jarðhæð safnbyggingarinnar - í anda þess að í þeirra tíð þá var brjóstmyndunum komið fyrir í gömlu eldhússkápunum. Guðni Gunnarsson listamaður sá um að hanna og smíða einfaldar hillur fyrir sýninguna. Brjóstmyndasýningin var opnuð með afar áhugaverðu málþingi laugardaginn 18. maí, sem jafnframt er hinn alþjóðlegi safnadagur. Yfirskrift dagsins þetta árið var „Framtíð hefðar“ (e. Future of Tradition). Málþingið opnuðu þær Sigríður Melrós Ólafsdóttir safnstjóri og Hildur Arna Gunnarsdóttir safnvörður og sögðu frá tildrögum og hvatanum að sýningunni. Guðni Tómasson listsagnfræðingur og dagskrárgerðarmaður flutti hugleiðingu um stöðu brjóstmynda í nútímanum titlaða Hver er nógu merkilegur? Anna Hallin myndlistamaður sagði frá sinni eigin brjóstmyndagerð í erindinu Valdakonur. Líflegar og fjörugar umræður urðu um efnið á málþinginu og héldu þær umræður áfram gesta á milli í opnunarhófi sýningarinnar. Brjóstmyndirnar eru enn til sýnis á safninu og verða um óákveðinn tíma. 

Einn af hvötum sýningarinnar, og sýningargripur í heiðurssessi, var brjóstmynd af fyrstu forsetafrú Íslands, Georgíu Björnsson, sem safninu barst að gjöf frá Lífeyrissjóðnum Birtu í desember 2018. Sú brjóstmynd er steypt í brons og þurfti hreinsunar við og var Jeanette Castioni forvörður því fengin til þess að yfirfara hana fyrir sýninguna, sem hún og gerði af mikilli fagmennsku og natni.  

Júní, júlí og ágúst
Yfir sumarið gekk lífið sinn skemmtilega vanagang á safninu, starfsfólk sinnti daglegum skyldum og tók vel á móti fjölda gesta. Gestafjöldi nær að jafnaði hámarki yfir mitt árið þrátt fyrir að dreifingin verði sífellt jafnari með svo til nýrri vetrarferðamennsku hér á landi.

Höggmyndagarðurinn er vin í miðborginni og íbúar höfuðborgarinnar hafa margir gert garðinn að sínum með reglulegum heimsóknum. Á góðviðrisdögum fyllist garðurinn fljótt af fólki á röltinu, listunnendum í nestisferðum, lestrarhestum með teppi og bók, börnum að leik og fjölskyldum í leit að skjóli og sól til samveru. Umhirða í höggmyndagarðinum hefur aukist með reglulegum slætti og klippingum. Ása Jóhannsdóttir garðyrkjufræðingur sá um garðinn í sumar af miklum myndarskap sem fyrri sumur. Gróskan í garðinum þetta árið var mikil og þegar komið var að lokum sumars var berjasprettan á reynitrjánum slík að elstu menn og konur muna ekki annað eins.  

Safnið var opið á hefðbundnum opnunartíma á Menningarnótt og aðgangur ókeypis, dagurinn var afar vel sóttur af ánægðum gestum. 

September og október
Allt árið um kring heimsækja skólahópar safnið en byrjun skólaársins fylgir alltaf lífleg uppsveifla og í haust fengu fjölmargir nemendur og kennarar leiðsögn um Listasafn Einars Jónssonar. Meðal þeirra fyrstu sem mættu þessa önnina voru hópar úr leirmótun frá Menntaskólanum við Sund og stúderuðu brjóstmyndir. Nemendurnir unnu síðan áfram með sínar eigin hugmyndir um brjóstmyndir í skólanum og sköpuðu þar að lokum magnaðar brjóstmyndir úr leir. Nemendur voru mjög opnir  fyrir þessu verkefni og lögðu mikla alúð í verkið. Svo mikla að við slepptum öðru verkefni til að gefa þessu meira rými.

Nóvember
Í tilefni af Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember bauð Listasafn Einars Jónssonar upp á viðburðinn Í minningu tveggja skálda – leiðsögn og ljóðalestur. Þar fjallaði Sigríður Melrós Ólafsdóttir safnstjóri um tvö verk Einars sem hann vann sem minnisvarða um skáldin Jónas Hallgrímsson og Paul Nolsøe. Halla Margrét Jóhannesdóttir, safnvörður, leikkona og rithöfundur, flutti valin ljóð eftir Jónas, sem sum hver voru samin til minningar um önnur skáld.  

Í nóvember var einnig komið að langþráðri viðgerð á lofti í bláa sal og sáu málarnir okkar um að leysa þau mál faglega af hendi á ótrúlega skömmum tíma.  

Desember
Í desember voru salir safnsins eftirsóttir til leigu bókakynninga forlaga og áhugaverðra viðburða ýmiss konar. Snjórinn prýddi garðinn og því var einstaklega fagurt þar um að lítast þegar lognið leyfði útiveru. Skólavörðuholtið er svo meðal vinsælustu viðverustaða miðborgarbúa og ferðamanna þegar nýtt ár gengur í garð og það var engin breyting á í lok árs 2019 þegar höggmyndagarðurinn og tröppur safnsins voru fjölsóttar undir miðnæturflugeldasýningum í miðborginni.  

Takk fyrir allar heimsóknirnar 2019... og verið innilega velkomin 2020!


LEJ - annáll 2018


Við skipulag starfsársins 2019 á Listasafni Einars Jónssonar fannst okkur viðeigandi að staldra aðeins við og líta til baka. Við tókum því saman svolítinn annál um það helsta.

Hér verður þó aðeins stiklað á stóru því á einstöku safni verður hver dagur einstakur í sjálfu sér -  með eftirminnilegum heimsóknum gesta á öllum aldri og minni viðburðum, skipulögðum sem óvæntum. Og auðvitað allri vinnunni sem fram fer, bæði fyrir augum gesta og að tjaldabaki.

Takk fyrir 2018!

Janúar
Í upphafi árs í janúar undirbjuggum við og héldum málþingið Stigið af stöplinum: höggmyndalist í almannarými þar sem myndlistamennirnir Kristinn Hrafnsson og Ólöf Nordal ásamt rithöfundum og listgagnrýnandanum Rögnu Sigurðardóttur ræddu málefnið frá ýmsum hliðum fyrir fullum sal af áhugasömum gestum. Kuldatíð og hálka héldu starfsfólki uppteknu við daglegan mokstur, söltun og söndun í fjölsóttum höggmyndagarðinum.

Febrúar
Sigríður Melrós safnstjóri fór suður á bóginn í þriggja mánaða námsleyfi og á meðan leysti Hildur Arna hana af með dyggri aðstoð annars starfsfólks safnsins; Höllu Margrétar, Skarphéðins, Viktoríu sem og þeirra Steina, Óla, Júlíans, Sigurbjargar og Sigurðar sem hlupu til þegar á þurfti að halda. Allir stóðu vaktina á safnanótt 2. febrúar þegar mikill fjöldi gesta heimsótti Listasafn Einars Jónssonar sem var opið langt fram á kvöld.  Strax eftir safnanótt var hluta af verkunum á jarðhæðinni pakkað inn til að verja þau fyrir ryki, vatni og skemmdum, því þá hófust framkvæmdir á gólfi tveggja sala. Teppi voru fjarlægð, múr og terrazzo slípað og flísar lagðar. Hluti jarðhæðar var lokaður allt fram í maí á meðan á framkvæmdum stóð. Í febrúar fengum við svo ánægjulega tilnefningu í Reykjavík Grapevine sem eitt af bestu söfnum borgarinnar.

Mars og apríl
Hrafnapar hélt mikið til í garði og á þaki safnsins. Og gerði síðar um vorið ítrekaðar tilraunir til að búa sér til laup á syllu við sívala stigahúsið á safnbyggingunni. Framkvæmdir héldu áfram af krafti og það var slípað, hreinsað og málað bæði í mars og apríl. 

Maí
Í maímánuði kom Sigríður Melrós aftur til starfa eftir námsleyfi og um svipað leyti lauk stóru framkvæmdunum innanhúss. Við tóku stórhreingerningar í sölum jarðhæðar og flutningar á verkum á sinn stað. Jarðhæðin var svo öll opnuð gestum á ný við mikinn fögnuð starfsfólks. Og utanhúss tók við umhirða í garðinum, sláttur og klippingar.

Júní
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Listasafn Einars Jónssonar og við áttum með henni ánægjulega safnastund. Sigríður Melrós Ólafsdóttir safnstjóri og Sesselja Snævarr stjórnarformaður kynntu starfsemi safnsins og hugmyndir að bættu aðgengi fyrir gesti til framtíðar. Í júní voru 95 ár frá því að safnið opnaði, þá fyrsta listasafnið á Íslandi. 

Júlí og ágúst
Duo Bragi hélt tónleika í safninu í byrjun mánaðar. Viðgerðir á þaki hófust og borvinnunni fylgdi tilheyrandi hávaði - sem var á stundum slíkur að ekki var hægt að rukka inn aðgangseyri á meðan á látunum stóð. Eftir vætusaman júlí var loksins hægt að vinna í garðinum í ágúst og Ása Jóhannsdóttir garðyrkjufræðingur sá um slátt og aðra umhirðu af miklum myndarskap. Auk þess bauð þurrkurinn upp á tækifæri sem við höfðum lengi beðið eftir: forvarsla verkanna í garðinum. Hreinsun verkanna vakti verðskuldaða athygli og Kristmann Magnússon fræddi bæði starfsfólk og gesti um ferlið – sem innifelur í sér greiningu, hreinsun viðkvæmra hluta með viðeigandi verkfærum, brúnsápuþvott, þvott með afjónuðu vatni, þurrkun, húðun með vörn og að lokum er bývax borið á verkin. Og allt þetta verður að fara fram í algjörum þurrki.

September og október
Vinna utanhúss hélt áfram inn í haustið þegar viðargrindverk var fúavarið. Herbert múrari gerði við sprungur í steyptum vegg umhverfis garðinn, hóf viðgerðir á nokkrum stöplum og lagaði múrskemmd á vegg skrifstofu. Verkinu er ekki lokið og við eigum von á Herberti aftur í vor. Einnig var safnbyggingin hreinsuð og á veggi hennar borin sérstök vörn. Allt árið um kring heimsækja skólahópar safnið en byrjun skólaársins fylgir alltaf lífleg uppsveifla og í haust fengu fjölmargir nemendur og kennarar leiðsögn um Listasafn Einars Jónssonar.

Nóvember
Um miðjan nóvember var mikil gleði í safninu þegar blásið var til hófs í tilefni af útgáfu bókarinnar Einar Jónsson myndhöggvari eftir Ólaf Kvaran sem gefin var út af Hinu íslenska bókmenntafélagi. Safnið studdi útgáfuna með láni á gömlum og nýjum myndum sem og myndvinnslu. Ferlið var langt og lærdómsríkt en bókin er öll hin glæsilegasta og er fáanleg í safnbúðinni.

Desember
Í desember voru salir safnsins eftirsóttir til leigu bókakynningar forlaga og áhugaverði viðburði ýmiss konar. Og þegar aðeins var liðið á mánuðinn barst safninu svo óvænt gjöf þegar fulltrúar frá Lífeyrissjóðnum Birtu komu færandi hendi með bronssteypta brjóstmynd af Georgiu Björnsson eftir Einar Jónsson. Það er ekki á hverjum degi sem það bætist „nýr“ gripur í safneign elsta listasafns landsins og því kættust starfsfólk og listunnendur um land allt yfir þessari skemmtilegu jólagjöf.

Framundan 2019:

  • Fastar leiðsagnir á föstudögum, ein á íslensku og önnur á ensku
  • Leiðsagnir á tillidögum
  • Safnanótt 8. febrúar: sýningin Andsetning. Olga Bergmann og Anna Hallin hafa unnið ljósverk/varpanir útfrá verkum safnsins. Semsagt ljósverk í myrkrinu á Vetrarhátíð.
  • Endurskoða 3 síður í heimasíðu safnsins.
  • Mars: Málþing og sýning á brjóstmyndum Einars.
  • Apríl: Samvinnuverkefni við Listaháskólann og HÍ listfræði. Nemendur vinna verkefni þar sem horft er til guðspeki og spíritisma í verkum Einars Jónssonar. Niðurstöður færðar fram í páskaviku í formi myndlistarverka, gjörninga og fyrirlestra í Hnitbjörgum
  • Alþjóðlegi safnadagurinn í maí