„Skuld" riddarinn er ríður niður náunga sinn - hefur í sama vetfangi draug þann er hann sjálfur vakti upp með ofbeldi sínu - sitjandi á bak við hann á þessum sligaða hesti - minnandi hann um skuldina er honum ber að borga.
Þannig lýsir Einar efni verksins Skuld sem hann gerði fyrst drög að árið 1900, en fullvann ekki við fyrr en eftir að hann hafði sest að á Íslandi. Af orðum hans er ljóst að inntak verksins er af siðferðilegum toga, um ábyrgð mannsins á gjörðum sínum. Til að færa hugmyndir sínar um það efni í mynd hefur Einar leitað í norræna goðafræði um skapanornirnar Urði, Verðandi og Skuld. Má sjá þá leit hans í norrænan menningararf til forna í ljósi þjóðernislegrar vakningar víða í norðanverðri Evrópu undir lok 19. aldar sem meðal annars birtist í verkefnavali listamanna. Verkið Skuld sýnir fallinn hest sem spyrnir við fótum en við fætur hans liggur fallinn maður. Á baki hestsins situr knapinn sem hefur orðið valdur að dauða hins. Við hlið knapans er stórvaxin vera með hulu fyrir andliti og hvíslar í eyra hans. Ber að túlka hana sem örlaganornina sem minnir manninn á þá skuld sem honum ber að greiða fyrir gjörðir sínar. Formrænt séð er verkið byggt á andstæðum skálínum sem draga fram merkingu þess þar sem andstæður takst á: annars vegar viljinn til að halda áfam reið sinni og svífast einskis og hins vegar áminningin um að axla ábyrgð gjörða sinna.