Verk

Fæðing Psyche | 1915-1927

Heiti verksins má rekja til forngrískrar goðsagnar um stúlkuna Psyche, persónugerving mannssálarinnar, sem bygging verksins hverfist um. Verkið er ferningur að lögum og myndar bygging þess viðsnúinn Þórshamar eða sólkross. Í flötunum fjórum eru persónugervingar höfðskepnanna: jarðarinnar í vinstra horni neðst þar sem myndhöggvari með stuðlaberg sér að baki heggur mynd stúlkunnar úr berginu, loftsins í mynd mannveru sem kemur eins og andblær inn á sviðið efst til vinstri, eldsins sem tekur á móti mannssálinni efst í hægra horni og vekur kærleikann með kossi og vatnsins sem leitar inn á sviðið neðst frá hægri og strýkur nýskapnaðinn mjúklega. Stefna loftsins og vatnsins inn á myndflöturinn kallar fram snúningshreyfingu sem með auknum hraða getur tekið á sig mynd kross innan í hring. Viðsnúinn Þórshamar innan í hring var tákn sköpunar innan guðspekinnar sem Einar hafði kynnst um 1910 og urðu kenningar hennar hugmyndalegur grunnur meginverka hans upp frá því. Á einum stað í handritum sínum vísar Einar til þessa verks og segir: Hið fyrrnenfnda "fæðingarmerki" [þ.e Þórshamar] er jeg leyfði mjér að kalla það - þóttist jeg viss um að væri "stíliseraður" eldsveipur gerður sem ferkantur í staðinn fyrir hvirflandi sól. Eldþokur alheimsins byrjuðu hnattmyndun sína þannig. Þá fyrstu grundvallarfæðing hins fysiska heims. – Fæðing efnisins fyrir bústað andans og þróun hans upp til æðri heima, fæðing andans í efnið. Þess vegna varð frá mínu sjónarmiði sjéð - snúningurinn frá vinstri til hægri – aðaðlhreyfingin - þótt hin fýsiska væri henni móthverf.


Til baka