Þegar á námsárum sínum í Kaupmannahöfn fór Einar að velta fyrir sér ýmsum siðferðilegum og trúarlegum spurningum sem voru hluti af opinberri umræðu samtímans og létu róttækar skoðanir á þeim málum hann ekki ósnortinn. Í safni hans eru til drög að verkum, þar sem gjörðir mannsins eru lagðar á vogarskál á efsta degi, til vitnis um þær hugleiðingar. Líkt og í verkinu Skuld varðar hugmyndin þar að baki ábyrgð mannsins á gjörðum sínum. Áþekk hugmynd liggur að baki verkinu Samviskubit sem Einar dró fyrst upp mynd af í skissubók sína árið 1906.
Á þeirri mynd er stórt karlmannshöfuð og ofan á því liggur lítil mannvera, sem líta ber á sem persónugerving samviskunnar, sem teygir sig niður enni mannsins og glennir upp augu hans. Úr óttaslegnum andlitssvip mannsins má lesa líðan hans við það sem hann er neyddur til að horfast í augu við. Fimm árum síðar mótaði Einar verkið í leir og bætti við annarri smáveru sem lögð er að eyra mannsins, augljóslega til áminningar um illar gerðar hans. Auk þess hefur Einar skerpt andlitsdrættina til að kalla fram illa líðan mannsins. Verkið stækkaði hann loks árið 1947, en mildaði andlitsdrættina eilítið. Verkið er tilfinningaþrungið og miðað við flest verka Einars er það auðlesið: táknmálið augljóst og andlitsdrættirnir látnir sýna viðbrögð mannsins við þeirri ábyrgð gerða sinna sem samviska hans krefst af honum.