Verk

Ingólfur Arnarson | 1907

Á dvöl sinni í Róm 1902-1903 mótaði Einar litla styttu af landnámsmanninum Ingólfi Arnarsyni sem sýnir mann í herklæðum sem stendur við öndvegisbrík, prýdda drekahöfði, og heldur um reistan atgeir. Nokkru eftir komu sína aftur til Kaupmannahafnar hélt hann áfram að vinna að styttu af Ingólfi og var hún þar á sýningu De Frie Billedhuggere vorið 1906.  Við heimsókn íslenskra þingmanna til Danmerkur haustið 1906 kom fram hugmynd um að Danir gæfu Íslendingum bronsafsteypu af verki Thorvaldsens af grísku goðsagnahetjunni Jason. Áður en af því varð, kom fram hugmynd í dönskum blöðum um að Danir gæfu Íslendingum styttu af Ingólfi Arnarsyni með vísan til þess að Einar hefði sýnt mynd af landnámsmanninum um vorið sama ár. Hugmyndinni var fagnað á Íslandi og þótti við hæfi að Íslendingar stæðu sjálfir straum af því með almennri fjársöfnun. Reið Iðnaðarmannafélagið á vaðið með 2000 kr. framlagi og haft var samband við Einar um gerð myndarinnar og fór hann strax að vinna að verkinu. Fjársöfnunin hér á landi gekk þó ekki sem skyldi, en Einari lauk við gerð myndarinnar síðla árs 1907 og sendi ljósmyndir af verkinu til Íslands. Hann sá minnisvarðann sem eitthvað meira en styttu af manni í fornum herklæðum og vildi tjá hug sinn um landnámið og eðlisfar landnemans. Hann bætti því lágmyndum við á allar hliðar fótstalls styttunnar með titlunum Flótti guðanna til Íslands fjalla, Ragnarökkur, Nornir og Ingólfshaugur þar sem hann færði hugmyndir sínar um landnámið í táknrænan búning. Ljósmyndir af verkinu voru til sýnis í Reykjavík haustið 1907 og líkaði mönnum styttan af landnámsmanninum, en skildu ekki lágmyndirnar. Opinber deila spratt um þær sem tafði verkið og endaði með því að þeim var sleppt. Árin liðu og það var ekki fyrr en í febrúar 1924 að bronsstyttan var afhjúpuð á Arnarhóli í Reykjavík.


Til baka