Verk

Natura mater | 1906

Verkið Natura Mater eða Móðir náttúra mun Einar hafa séð fyrir sér sem minnisvarða yfir fjöldagröf. Aðalmyndefnið má rekja til egifskra og grískra sagna í fornöld um sfinxina, furðudýrið með andlit konu og brjóst en ljónsskrokk að öðru leyti. Myndefnið birtist í verkum listamanna um aldamótin 1900 og jafnan er þar gefið til kynna tvíeðli sfinxarinnar, þeirrar sem gefur en hrifsar jafnframt til sín. Áþekk hugmynd virðist liggja að baki verki Einars og þar er það náttúran sem bæði gefur líf og tekur það til sín. Verkið sýnir sfinxina liggja fram á lappir sér og á þeim sitja maður og kona með krosslagðar hendur á brjósti hennar og sjúga til sín næringu. Undir hrömmum sfinxarinnar liggur lífvana fólk, sömuleiðis með krosslagðar hendur. Andlit sfinxarinnar er svipbrigðalaust og þar með óræðið og upp af öxlum hennar rís kýprusviður, tákn gróðurs sem og dauða. Á langhliðum verksins eru lágmyndir: á annarri hliðinni grasætur, svo sem hestar og gíraffar, fílar og úlfaldar, og á hinni kjötætur og er maðurinn þar á meðal. Í verkinu mætast andstæður sem hvor annarri háðar mynda hringrás lífsins. Verkið setti Einar á píramíðalaga þrepaðan stall sem tengir verkið enn frekar sfinxinni egifsku.


Til baka