Skúlptúrar, málverk og myndbandsinnsetning í andlegu skjóli
Á sýningu Hildar eru ný verk er marka lok sjálfsævisögulegs sýninga-þríleiks hennar. Eftir vaxtarverki og eirðarleysi í fyrri hlutum þríleiksins á sýningunum Hamur (e. Skin) árið 2019 í Listasalnum í Mosfellsbæ og Chrysalis árið 2022 í Hosek Contemporary sýningarými í Berlín, fylgjum við henni nú yfir á tímabil sem einkennist af jafnvægi og sálarró. Sýning Hildar, er í senn afhjúpandi og óafsakandi sjálfsmynd myndlistar-mannsins. Hildur hefur áður afhjúpað margar hliðar eigins varnarleysis fyrir almenningi en leitar nú andlegs skjóls í kvenlegri táknfræði og grískri goðafræði.
Þráður nándar og persónulegrar víddar gengur í gegnum verk Hildar; skúlptúra, málverk og myndbandsinnsetningu sem staðsett eru innan um verk Einars Jónssonar í safni hans. Til móts við alvarlegan undirtón í skúlptúrum Einars, festu þeirra og þéttni efnisins, leikur Hildur sér með mýkt og sveigjanleika efnis sem hún mótar sínar verur úr – verur sem eru nær því að vera blendingar en af mannlegum toga.
Hrifning af fáránleikanum í hljóðlátri uppreisn
Verk sýningarinnar Hamskipti endurspegla af dæmigerðri, óheftri nálgun Hildar, hrifningu hennar af fáránleikanum og tengingu við sjálfs-fyrirlitningu sem leið til sjálfsskoðunar. Verk hennar eru hljóðlát uppreisn gegn samfélagslegum væntingum og yfirvaldi. Þau umbreyta óvirku ástandi yfir í virkt, orkumikið ástand. Verkin taka á sig form upplyftingar og miðla sátt myndlistarmannsins við sjálfa sig. Áhorfandanum er boðið í nokkurs konar ferðalag innileikans sem í felast formbreytingar og losun hamsins, þar sem gægst er inn fyrir ysta lag hinnar mannlegu tilveru.
Sýningin Hamskipti er hluti sýningarraðarinnar Tími, tilvist & tileinkun: Hamskipti í Listasafni Einars Jónssonar 2023. Sýningaröðin er liður í að opna safnið fyrir sjónrænu samtali um tilurð og tilgang á 100 ára afmæli þess. Starfandi listamönnum er boðið að sýna innan um verk Einars og takast á við krefjandi rými safnsins.
Sýningin stendur til 2. janúar 2024 og er styrkt af safnaráði og Myndstefi.
Hildur hefur haldið fjölda einkasýninga og sýnt á samsýningum síðan hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Hún býr og starfar í Berlín.
Fræðsludagskrá:
Sunnudaginn 8.október kl. 14:00 – listamannsspjall á íslensku.
Sunnudaginn 15. október kl. 14:00 – listamanns- og sýningarstjóraspjall á ensku.