Verk

Brautryðjandinn | 1911

Fyrstu drög að þessu verki er teikning frá 1902 sem sýnir karlmann ryðja sér braut í gegnum urð og á hana hefur Einar skrifað „Vegabrjótur“. Fimm árum síðar dró hann upp litla tússteikningu með sama myndefni og á hana hefur hann skrifað „Banebryderen“ eða brautyðjandinn. Efni myndanna má tengja umræðu samtímans um frelsi í listsköpun og til að tjá hug sinn um það efni hefur Einar gripið til náttúrunnar, steinsins, sem táknmyndar fortíðarhyggju sem hinn skapandi kraftur, maðurinn einn, vinnur á. Í lágmyndinni sem Einar mótaði árið 1911 og gaf til minnisvarða Jóns Sigurðssonar sem hann vann sama ár, er formmótunin mun skýrari. Í stað óreglulegrar urðar eru komnir háir stallar sem maðurinn ryður úr vegi. Trapisuform myndarinnar, sem réðst af útlínum stallsins undir styttunni, ræður uppbyggingu lágmyndarinnar. Fyrir miðju eru hæstu stallarnir, stuðlabergsstallar, og framan við þá risastór maður sem ryður þeim úr vegi fyrir smávöxnum mannfjöldanum úr öllum stéttum samfélagsins sem fylgir honum eftir.

Standmynd Jóns Sigurðssonar var fyrst komið fyrir á blettinum framan við Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu í Reykjavík. Stallinn undir standmyndinni hafði Einar sjálfur teiknað og var lágmyndin löguð að útlínum hans. Er því ljóst að Einar sá styttuna ásamt stallinum og lágmyndinni sem eina heild. Þegar lágmyndin var komin á stall standmyndar Jóns lá beint við að túlka efni hennar með hliðsjón af framlagi Jóns í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Standmynd Jóns Sigurðssonar var flutt af Stjórnarráðstúninu á Austurvöll árið 1931, á annan stall og mun hærri en þann sem Einar hafði teiknað.

Til baka