Verk

Úr Álögum | 1916-1927

Einar fór að vinna að verkinu Úr álögum árið 1916, en stækkaði það síðar og fullvann árið 1927. Fyrir miðju verksins stendur riddari og heldur um skaft sverðs síns sem hann hefur rekið niður í haus mikils dreka sem liggur undir fótum hans. Á öðrum handlegg heldur riddarinn á ungri nakinni stúlku sem réttir út handlegginn og varpar af sér ham gamallar konu, en í hinni hendinni heldur riddarinn skildi hátt á lofti. Þeim að baki hnígur stór skrokkur drekans niður og vængir hans dragast saman.

Myndefnið sem Einar hefur unnið út frá er velþekkt í list miðalda og má rekja það til sagna í frumkristni um heilagan Georg. Þar segir að kristni hafi verið innleidd í Litlu-Asíu með því að dreki, tákn illra afla og heiðins síðar, var drepinn af heilögum Georg frá Kappadokíu í Litlu-Asíu og var Kappadokía persónugerð sem ung stúlka. Í sögnum miðalda var heilagur Georg hins vegar sagður hafa barist við dreka utan borgarmúra til að bjarga konungsdóttur sem fórna átti. Í myndlist er drekinn jafnan vængjaður og riddarinn ýmist í rómverskri brynju eða í herklæðum miðalda. Í verkum af trúarlegum toga er riddarinn sýndur traðka á drekanum sem vísa á til sigurs hins kristna siðar.

Í verki Einars eru augljós tengsl við sagnir og myndverk af viðureign heilags Georgs við drekann og björgun stúlkunnar. Með kynni Einars af guðspekikenningum í huga sem og hugmyndir hans um frelsi í listsköpun hafa verið færð rök fyrir því að túlka megi inntak verksins með hliðsjón af skrifum breska guðspekingsins Annie Besant um andlega þróun mannsins þar sem gripið er til líkingar með vísun til viðureignar heilags Georgs og drekans. Samkvæmt Besant er drekinn það sem í guðspeki er nefnt Kama, þ.e. þar sem girndin hefur tekið sér bólfestu í manninum, en mynd heilags Georgs táknar svonefnt Manas sem með því að losa sig frá Kama er afl hins frjálsa vilja mannsins. Forsendan fyrir því frelsi er þó sú að sigrast á Kama sem liggja eigi fótum troðinn af sigurvegara sínum. Í verki sínu virðist Einar hafa verið nokkuð trúr skrifum Besant. Staðan riddarans og látbragð gefur til kynna hið virka afl sem riddarinn táknar og ráðið hefur bug á drekanum, tákni girndarinnar, til að frelsa hinn hreina vilja sem unga stúlkan er persónugervingur fyrir, því að öðrum kosti mun girndin ráða yfir hinum frjálsa vilja. Túlka má verkið með hliðsjón af áherslu Einars á að listamaðurinn feti ekki í spor annarra heldur fari eigin leiðir í listsköpun.

Til baka