Verk

Alda aldanna | 1894-1905

Einar mótaði fyrstu útgáfuna að verkinu í Róm á árunum 1902-1903 og í henni voru megindrög stóru myndarinnar komin. Í stóru myndinni varð formmótunin hins vegar skýrari og látbragð konunnar annað. Hún rís upp sem fyrr og handleggir hennar falla niður með síðum, en í fyrri gerðinni spennti konan greipar. Hár hennar og klæði falla sömuleiðis lóðrétt niður og í faldinum, öldufaldinum, sogast mannverur í snúning upp eftir líkama konunnar. Mynd þeirra neðstu er óljós, en skýrari er ofar dregur og sú sem skýrasta hefur drættina hefur komist upp á brjóst konunnar. Myndefnið má rekja til goðsagnarinnar um fæðingu Afródite, hinnar grísku gyðju fegurðar og ástar, þeirrar „sem stígur upp úr hafinu“. Stílsögulega sverja sveigðar línur sem og vísun til náttúrnnar sig í ætt við jugendstíl aldamótanna 1900. Í fyrstu gaf Einar verkinu heitið Skýstrokkurinn sem vísar beint til náttúrnnar, en síðar hlaut það heitið Alda aldanna sem er huglægara og táknrænna og felur í sér ákveðna tímavídd, jafnvel vísun til eilífrar baráttu eða þróunar sem lesa má úr verkinu. Með hliðsjón af hreyfingunni upp á við og látbragði smáveranna, þeirra sem komast upp og hinna sem komast ekki, má túlka inntak verksins út frá hugmyndum samtímans um hinn sjálfstæða einstakling sem og leitina að frumleika í listsköpun sem Einar hreifst af. Hann lauk við verkið árið 1905 og sýndi það á sýningu hóps róttækra myndhöggvara sem nefndist De Frie Billedhuggere í Kaupmannahöfn árið 1906.

 

Til baka