Nýtt sjónarhorn

Sumarið 2010 var Gestum Listasafns Einars Jónssonar boðið að taka þátt í verkefninu Nýtt sjónarhorn á list Einars Jónssonar. Verkefnið fól í sér að opna almenningi aðgang að listaverkaeign og byggingu safnsins. Gengið var út frá nálgun almennra gesta að einstökum verkum, sem þeir völdu að staldra við.

Gestir skrifuðu hugleiðingar sínar um verkin og hljóma þær nú við myndböndin sem hér er að finna. Einnig er að finna stutta almenna umfjöllun um hvert verk sem skrifuð var út frá því sem gestir settu niður á blað.

Dögun


Í Dögun leitar Einar Jónsson aftur í þjóðsagnararfinn, í þessu tilviki er nokkur munur á svörum íslenskra og erlendra gesta. En ekki höfðu allir erlendu gestirnir heyrt um tröll eða álíka forynjur áður. Dögun náði athygli margra safngesta en 44 þeirra kusu að skrifa um það. Nafnið Dögun leiddi marga til þeirrar niðurstöðu að Einar væri hér að persónugera nótt og dag. Karlkyns veran væri nóttin og að konan væri dagurinn. Verkið væri þá að sýna dögun nýs dags, þar sem ljósið brýst yfir nóttina og yfirtekur hana. Þátttakendur minntust einnig oft á andstæðurnar í verkinu, hina hrjúfu áferð tröllsins á móti ávölum og fallegum línum konunnar. Þessar andstæður skapa ákveðna togstreitu í verkinu. Anna Jónsson kona Einars skrifaði um það í bréfi hvernig Einar hafði hugsað sér að leggja enn frekari áherslu á andstæðurnar í verkinu, með því að tröllið væri hoggið úr granít en konan væri úr marmara eða bronsi. En þrátt fyrir að það hafi aldrei komist í verk, þá er andstæðurnar í verkinu augljósar og margir gestanna kveiktu á því. Ýmsir gestir tengdu verkið við þjóðsögur og skrifuðu út frá því hvað þau sáu í verkinu.

Brautryðjandinn


Einar  lét þetta verk fylgja sem gjöf með styttu Jóns Sigurðssonar sem stendur nú á Austurvelli. Hann hafði óbeit á að gera natúralísk verk af einstaklingum og því var þetta hans leið til þess að fullnægja bæði kröfum verkkaupanna en einnig sínum kröfum sem listamanns, Brautryðjandinn sýnir hvernig Einar sá Jón Sigurðsson og baráttu hans fyrir sér. 11 þátttakendur í verkefninu skrifuðu um þetta verk. Eitt af því sem kom fram í verkefninu í heild og er áhugavert er það hvernig margir þátttakendur tengdu sjálfa sig við verkin. Það á einnig við um Brautryðjandann.  Fólk finnur beinar tengingar í líf sitt og fortíð í verkum Einars Jónssonar og finnst það knúið til þess að segja frá þeim þegar það fær tækifæri til þess. Þátttakendur vildu meina að verkið væri myndlíking fyrir alla þá sem hafa unnið brautryðjendastarf í gegnum söguna. „Sumir einstaklingar fá það hlutverk í lífinu að ganga fyrir og opna nýjar leiðir inn í framtíðina.“

Skuld


15 þátttakendur skrifuðu um Skuld. Þátttakendur túlkuðu verkið að jafnaði á tvo máta, annars vegar í sambandi við örlaganornirnar Urði Verðandi og SKuld og norrænar goðsagnir og hinsvegar að hér sé á ferð maður sem eigi eftir að gjalda fyrir gjörðir sínar. Báðir hóparnir lásu sögu úr verkinu, þó að verkið sé kyrr mynd, þá sér fólk fyrir sér bæði augnablikin fyrir þennan atburð og eftir. Verkið lifnar fyrir augum þeirra. Um þetta verk sagði Einar Jónsson sjálfur: „Riddarinn er ríður niður náunga sinn - hefur í samviðfangi draug þann er hann sjálfur vakti upp með ofbeldi sínu - sitjandi á bak við hann á þeim sligaða hesti - minnandi hann um skuldina er honum ber að borga.“

Natura Mater


Flestir þátttakendanna tengdu verkið við menningu Egypta og töluðu þá sérstaklega um sfinxin, sem verkinu svipar mjög til. Það stendur einnig á upphækkun sem líkist pýramída. Samkvæmt skrifum fólks er listamaðurinn búinn að persónugera móður náttúru sem sfinx, hálfa manneskju, hálft ljón. Mannkynið nærist af henni, en það eru einnig nokkrir sem hafa fallið frá af völdum náttúrunnar. Þannig er það í eðli náttúrunnar að gefa en einnig að taka. Einar Jónsson hafði hugsað sér þetta verk sem minnismerki yfir fjöldagröf, stað mikilla átaka eða hamfara þar sem margir höfðu látið lífið. Náttúran og náttúruvernd var ofarlega í huga margra þátttakenda, sérstaklega erlendu gestanna sem heimsækja landið oft í þeim tilgangi að fá að kynnast ósnortinni náttúru. Þetta verk kallaði á tilfinningar fólks varðandi náttúruna.

Alda aldanna


Verkið er eitt af þekktari listaverkum Einars Jónssonar og var mjög vinsælt viðfangsefni í þessu verkefni.. Áhugavert er að sjá hve mikil áhrif nöfn verkanna höfðu á túlkun þátttakenda, stór hluti þeirra ræddi um tímann í tengslum við þetta verk. Nafnið Alda aldanna eða The Wave of the Ages gefur það auðvitað sterklega til kynna.  Það er áhugavert að velta því fyrir sér ef að verkin hefðu verið nafnlaus hvort að útkoma þessa verkefnis hefði ekki verið mjög frábrugðin.   Líklegra er að fleiri hefðu tengt það við sjóinn og sjómennsku eins og sumir þátttakendur gerðu. Um tíma fylgdu engin nöfn verkunum, því Einar vildi ekki hafa áhrif á túlkun gesta. Guðmundur Finnbogason bendir á að verkið snúist um hinn sterka einstakling sem nær að brjótast áfram og komast hærra en restin af mannfólkinu, það er sú persóna sem er hæst á verkinu við hjartastað öldunnar sjálfrar á meðan hinar eru fastar neðar í öldurótinu. Þetta er þema sem Einar Jónsson vann oft með og sést í mörgum verkum hans m.a í Brautryðjandinn og Höndin.

Samviskubit


Myndmálið hér gæti ekki verið einfaldara, hér hefur myndskáldinu tekist að móta þessa sterku tilfinningu sem sækir að okkur öllum einhvern tímann á lífsleiðinni. 35 Þátttakendur skrifuðu um Samviskubit. Margir hverjir töluðu um það hversu auðveldlega þau gætu tengt sig við verkið.Þannig fannst fólki það skilja tilfinninguna sem verkið er að sýna. Líkt og með Brautryðjandinn þá gerðu þátttakendur mikið af því að tengja sig persónulega við verkið og sjá jafnvel sjálfa sig í þeim. Verkið er að vísu nokkuð óhugnalegt en það dregur fram tilfinningar hjá fólki og fær það til að tjá sig. Samviskubiti er lýst hér á ákaflega átakalegan en eftirminnilegan hátt.

Fæðing Psyche


Verkið blasir við gestum um leið og þeir ganga inn um aðaldyr safnsins. Það voru 9 þátttakendur sem tjáðu hug sinn um Fæðing Psyche. Þeir sem staldra við verkið og horfa á það sjá oft að í grunninn þá myndir það sólkross eða þórshamar. Þórshamarinn er ævafornt helgitákn og merkir meðal annars þróun og endurfæðingu. Það á vel við hér þar sem höfuðskepnurnar fjórar eldur, vatn, loft og jörð eru að móta sálina. Hér er ekki verið að skapa mynd af fæðingu manns heldur af fæðingu sálarinnar sjálfrar eða eins og einn gesturinn skrifaði: „conveying the spiritual process of a birth.“Einar hefur oft reynt að persónugera hugmyndir sínar og tilfinningar og honum hefur tekist það sérstaklega vel hér í þessu verki. Talar hann sjálfur um það að hér sé um að ræða  „fæðingu andans í efnið“

Úr álögum


15 þáttakendur skrifuðu hugleiðingar sínar um Úr álögum.  Enn og aftur kom það skýrt í ljós að fólk tengdi sig persónulega við verkin. Það er í raun samsett úr tveim sögum, Einar átti það til að blanda saman sögum, goðsögnum og margskonar trúarlegum efnum í verkum sínum til þess að sýna það sem hann vildi segja. Annarsvegar er hér um að ræða söguna um heilagan Georg og drekann og hinsvegar sagan um prinsinn sem frelsar prinsessuna úr álagaham, sem sést á hamnum sem stúlkan heldur frá sér. Þátttakendum fannst verkið einnig lýsa sigri ljóssins yfir myrkrinu, hið góða gegn því illa. Styrkur riddarans er mikill og sigur hans yfir drekanum mikilvægur.

Útlagar


Þetta er eitt þekktasta verk Einars Jónssonar, það er að finna á þrem stöðum á landinu, á Akureyri, við kirkjugarðinn við Suðurgötu í Reykjavík og í Hnitbjörgum. Verkið er það fyrsta sem Einar Jónsson sýndi opinberlega en það gerði hann árið 1901 í Charlottenborg í Kaupmannahöfn. Því var vel tekið af löndum hans en fékk misjafna dóma annarsstaðar frá. Það voru 49 manns sem kusu að skrifa um útlagana fyrir þetta verkefni. Nokkuð auðvelt er að nálgast verkið og lesa út úr því sögu, en þetta verk var gert áður en Einar Jónsson sökkti sér djúpt í symbolisma og guðspeki. Er innblásturinn fenginn úr þjóðsögum íslendinga, og er val Einars af myndefni er í samræmi við tíðarandann meðal mennta- og listamanna um aldamótin 1900. Einar var einnig hvattur síðar af sr. Valdimar Briem til þess að leita á þjóðleg mið svo að hann hefði vinnu. Vegna þess hve auðvelt er að nálgast þetta verk kom ekki á óvart að margir skyldu velja það.

Íbúð Einars og Önnu Jónsson

Vegna skipulags safnhússins er íbúð þeirra hjóna Einars og Önnu ekki aðgengileg öllum. Verkefninu var því einnig ætlað að bæta aðgengi að safninu, hér er því hægt að sjá myndband úr íbúðinni.