Anna Jónsson

Ung að árum

Anna Marie Mathilde Jónsson f. Jörgensen var fædd 14. apríl 1885. Foreldrar hennar voru Karl Jörgensen og Mathilde Jörgensen f. Wenk, frá Fredericia á Jótlandi. Faðir hennar rak lengi vélsmíðaverkstæði í Kaupmannahöfn og móðir hennar var húsmóðir. Var Anna var elst tólf barna þeirra.

Anna lærði kjólasaum hjá dömuklæðskera í Kaupmannahöfn, og vann við þá iðn í nokkur ár. Þegar þau Einar fluttust til Íslands árið 1914 leigði hún sér herbergi í húsi við Skólavörðustíg og tók að sér ýmiss konar handyrðir fyrir fólk. Síðar aðstoðaði hún Einar oft við vinnu hans, hélt verkum sem voru í vinnslu votum, elti fyrir hann vax og fleira.

Anna og Einar kynntust á nýársdansleik íslenska stúdentafélagsins í Prins Wilhelms Palæ í Kaupmannahöfn árið 1901 þar sem Einar bauð henni upp í dans. Síðar mótaði hann verk sem hlaut heitið Dansinn til minningar um þeirra fyrsta fund. Einar og Anna voru trúlofuð í 15 ár þar sem Einar taldi sig ekki geta búið þeim stöndugt heimili. Árið 1917, þegar hann hafði fengið pöntun frá Bandaríkjunum að styttu Þorfinns karlsefnis, leit hann framtíðina loks það björtum augum að hann bað konu sinnar. Þau Anna voru gefin saman í Landakotskirkju á Jónsmessukvöldi árið 1917 og héldu daginn eftir til Bandaríkjanna þar sem þau voru í tvö ár.

Við heimkomuna vorið 1920 fluttu þau inn í safnhúsið sem var opnað gestum á Jónsmessudag árið 1923. Þar var heimili þeirra fram undir miðja 20. öld, er þau fluttust í minna hús á lóð safnsins. Eftir lát Einars bjó Anna bjó áfram í húsinu og veitti safninu forstöðu fram á níræðisaldur. Fyrir utan hefðbundin störf á safninu vann hún að því að ganga frá bókasafni og íbúð þeirra hjóna til sýningar. Anna Jónsson lést 2. október árið 1975.